144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[16:13]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, við hv. þingmaður verðum víst seint sammála um það hvernig við ætlum að leysa hin stóru mál úti í heimi og nálgumst greinilega málin frá ólíkum, ég held ég verði að segja ólíkum grundvallarsjónarmiðum.

Ég tel til dæmis ekkert endilega víst að forustumenn og leiðtogar Eystrasaltsríkjanna líti fyrst til friðsamlegra lausna. Þeir gætu alveg eins verið í þeim hópi sem hoppar á þann vagn að líta fyrst til gamalla varnar- eða hernaðarlausna, sem ég tel einmitt að við þurfum að koma okkur út úr. Allar þjóðir heims þurfa að koma sér út úr þeim fasa að horfa fyrst til þess að grípa til vopnavalds þegar leysa á vanda sem svo sannarlega er til staðar í heiminum. Einhvers staðar þarf að byrja til þess að snúa af þeirri vegferð sem heimurinn er á í dag. Og ég tel að eina leiðin sé sú að einhver verði að bakka. Ef ég mætti ráða værum við ekki aðilar í NATO en við erum það víst og þess vegna finnst mér eðlilegt að við reynum að nota þann vettvang meðan við erum þar til þess að tala því máli að við drögum frekar úr, að NATO hætti að vera árásargjarnt hernaðarbandalag og fari frekar að líta til þess hvernig það getur stutt við friðsamlegar aðgerðir. Það þýðir auðvitað kúvendingu á bandalaginu, en ég held að við þurfum, ef við viljum lifa á þessari plánetu eitthvað áfram, róttækar (Forseti hringir.) breytingar í hugsunarhætti okkar og það sé friðarstefna sem við þurfum að hafa að leiðarljósi.