144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[16:15]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér skýrslu utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál. Skýrslan er 104 blaðsíður og fer yfir mjög vítt svið. Þau atriði sem ég vil fjalla um tengjast erlendum viðskiptum Íslands, opnun nýrra markaða á Evrópska efnahagssvæðinu og nokkrum öðrum atriðum.

Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir störf hans og því ágæta starfsfólki og ræðismönnum sem vinna ötullega að því að gæta hagsmuna Íslands á erlendum vettvangi og fjölda málaflokka. Eins og kemur fram í þeirri skýrslu sem Gunnar Bragi Sveinsson hæstv. utanríkisráðherra hefur afhent þinginu gætir þar ýmissa grasa og ráðuneytið og starfsfólk hans þarf að sinna mjög ólíkum málaflokkum.

Ísland er fámennt ríki sem reiðir sig í mjög miklum mæli á aðgang að erlendum mörkuðum og hlutfall innflutnings og útflutnings er margfalt hærra hjá okkur en hjá stórþjóðum. Utanríkisþjónustan gegnir því gríðarlega mikilvægu hlutverki fyrir íslenskt efnahagslíf. Engu að síður býr utanríkisráðuneyti lítils lands við takmörkuð fjárráð og takmarkaðan mannafla og þarf því að forgangsraða mjög stíft í áherslum sínum. Í forgangi hlýtur að vera borgaraþjónusta og efnahagsmál og stuðningur við þróunarlönd.

Ég tel að um slíkar áherslur í utanríkismálum geti ríkt góð samstaða. Við viljum standa vörð um þann árangur sem náðst hefur í að byggja upp viðskipti við nágrannaríki okkar og ekki síst ríkin á Evrópska efnahagssvæðinu, en þangað fara nú 72% af útflutningi okkar og mikið af innflutningi okkar kemur þaðan. Eins og fram kemur í skýrslunni hefur Ísland gert 69 fríverslunarsamninga eða fríverslunarsamninga sem ná til 69 landa, þar með talið að sjálfsögðu ríkja Evrópusambandsins og EFTA. Ég held að það megi samt spyrja að því hvar hinum takmörkuðu kröftum utanríkisþjónustunnar sé best varið, hvernig beri að forgangsraða. Er mikilvægast núna að efla viðskipti okkar við ESB-ríkin enn þá frekar eða er tilefni til að beina kröftunum að því að efla og víkka út viðskipti Íslands við fleiri svæði, til dæmis við Bandaríkin, Kanada og Brasilíu? Sem dæmi eru viðskipti okkar við Bandaríkin innan við 5% af útflutningi okkar og í Kanada minna en 1%, en samt eru þetta mjög öflugir og stórir markaðir og í raun eru ekki miklar hindranir á viðskiptum Íslands við þessa markaði. Unnið hefur verið að endurbótum á samningi við Kanada og mér skilst að tollar séu í sjálfu sér ekki vandamálið við innflutning á okkar vörum inn á Bandaríkjamarkað.

Því er til dæmis spáð að á næsta áratug verði hraustlegri hagvöxtur í þessum löndum en á mörkuðum ESB. Dollarinn hefur nú þegar styrkst um 30% gagnvart evru á tólf mánuðum og íslensk útflutningsfyrirtæki hljóta að horfa til hærra útflutningsverðs þangað á næstunni. Ég treysti því að utanríkisþjónustan vaki yfir þeim breytingum og miði áherslur sínar við það.

Þar sem 72% af útflutningi okkar eru til ríkja ESB tel ég nauðsynlegt að ræða örlítið nánar þann vanda og þá óvissu sem umlykur bandalagið. Þessi vandamál eru býsna alvarleg og sér ekki fyrir endann á þeim. Það er líka áhyggjuefni fyrir Ísland, en eins og hefur reyndar komið fram í skýrslum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er óvissan í Evrópusambandinu talin ógn við efnahagsbata Íslands.

Rót vandans virðist liggja í því að evran hefur reynst allt of sterkur gjaldmiðill fyrir sum aðildarríki myntbandalagsins. Fyrst eftir upptöku evrunnar fengu þessi ríki sömu lágu vextina og hæfðu þýska hagkerfinu. Afleiðingin af hinum lágu vöxtum var gríðarleg lánabóla og skuldasöfnun í þessum löndum. Og svo þegar hrunið kom óhjákvæmilega áttu þessi ríki ekki lengur þann kost að fella gengið. Þá er þeim hinn kosturinn nauðugur, þ.e. langdregin og sársaukafull innri gengisfelling þar sem laun eru lækkuð, auðvitað fyrst hjá ríkisstarfsmönnum og láglaunafólki, og svo fylgja á eftir uppsagnir, að sjálfsögðu fyrst hjá ríkisstarfsmönnum, einkavæðing á innviðum á brunaútsölu. Við það bætist svo atgervis- og fjármagnsflótti.

Fjármagnsflótti frá einkareknum evrubönkum í aðildarríkjum myntbandalagsins endar yfirleitt með því að ríkissjóður verður að gangast í ábyrgð svo að seðlabanki evrusvæðisins telji óhætt að lána þessum einkabönkum lausafé. Ef ríkissjóður gengur ekki í slíka ábyrgð verður lausafjárhrun, bankahrun, og hagkerfið stöðvast. Þess vegna kjósa stjórnvöld í þessum ríkjum ávallt að gangast í ábyrgð fyrir þessa banka og þar er kannski komin rótin að óánægju íbúanna. Grískir kjósendur hafa mátt horfa upp á auðmenn bjarga eignum sínum úr landi í evrum á meðan venjulegt launafólk situr eftir á lækkuðum launum eða jafnvel atvinnulaust. Í Grikklandi eru 26% íbúanna að leita sér að vinnu en finna hana ekki og enn fleiri hafa hreinlega gefist upp á því og eru ekki inni í þessari tölu. Þetta er bara talan yfir þá sem eru að leita sér að vinnu, 26%.

51% ungs fólks er í atvinnuleit. Húseignir hafa fallið í verði en skuldirnar sem á þeim hvíla í evrum hafa ekki fallið í verði. Ríkissjóður Grikklands er orðinn miklu skuldsettari en hann var þegar björgunaraðgerðir þríeykisins hófust. Féð sem þríeykið hefur lánað grískum bönkum hefur nýst lánardrottnum bankanna og auðmönnum í Grikklandi sem hafa forðað sér úr landi með fé sitt og nemur fjármagnsflóttinn milljörðum evra á mánuði hverjum, en launafólk og skattgreiðendur sitja eftir með sárt ennið.

Hver ber ábyrgð á því? Er það almenningur í Grikklandi sem trúði þeirri sögu og því ævintýri að upptaka evru mundi færa því langþráðan stöðugleika, lága vexti og bætt lífskjör? Eru það ráðamenn í Grikklandi sem sóttust eftir aðild að myntbandalagi á of sterku gengi til að hygla grísku efnafólki? Hverjir græddu mest á lánabólunni eftir að evran kom með sína lágu vexti? Var það grískur almenningur? Varla. Hver ber ábyrgðina? Eru það leiðtogar Evrópusambandsins sem samþykktu inngöngu Grikklands í myntbandalagið gegn betri vitund og þrátt fyrir háværar aðvaranir allra sérfræðinga?

Afleiðingin af öllu þessu er sú að nú virðist vera komið upp kalt stríð á milli Grikklands og Þýskalands þar sem brigslin ganga á víxl. Talað er um ógreiddar stríðsskaðabætur. Nú er rætt í fúlustu alvöru um að Grikkir gangi úr myntbandlaginu eða að öðrum kosti verði þar áfram og taki því þá þegjandi sem þeim er sagt að gera. Gríska lýðræðið mun þá víkja fyrir embættisræðinu í Brussel.

Í augnablikinu virðist engin auðveld lausn í sjónmáli á þessum vanda myntbandalagsins. Álitsgjafar heimspressunnar keppast við að skrifa greinar um hvort sambandið muni liðast í sundur eða breytast í bandaríki Evrópu, en fáir virðast telja að það geti verið til áfram í óbreyttri mynd.

Allt þetta getur haft afleiðingar fyrir okkur hér á Íslandi. Kannski er þó mikilvægast að við drögum lærdóm af því sem þarna hefur gerst. Hér hafa menn í alvöru verið að velta því fyrir sér hvort evran og aðgangur að myntbandalagi evrunnar geti verið lausn á vandamálum Íslands. Ég held að þessar dæmisögur frá myntbandalagi evrunnar sýni okkur að það er ekki líklegt. En ég ætla ekki að orðlengja frekar um vanda Evrópusambandsins. Það hlýtur að vera okkar sameiginlega von að þar takist vel að greiða úr vandamálunum, en ég get ekki alveg séð í hendi mér hvernig það mun takast. Í millitíðinni legg ég til að íslenska utanríkisþjónustan íhugi hvort ekki sé mikilvægt að beina sjónum sínum að þeim mörkuðum sem glíma við minni vandamál og draga úr því hversu berskjaldað íslenskt efnahagslíf er fyrir hugsanlegum áföllum á evrusvæðinu.