144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[16:26]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða utanríkismálin sem eru afskaplega mikilvægt og vonandi verða þau mál um alla framtíð málefnaleg og upplýsandi á Íslandi. Það hefur nokkuð vantað upp á það, eins og allir vita, og fer umræðan því oft í hina sérkennilegustu hringi. Þegar kemur að utanríkismálunum má segja að á heildina litið lifum við í viðsjárverðari heimi en við höfum gert. Við sjáum átök í austanverðri Evrópu sem hafa ekki sést í langan tíma, þar sem barist er með vopnum eins og skriðdrekum og stórskotaliði. Menn hafa ekki séð annað eins síðan í seinni heimsstyrjöldinni þegar barist var í Kursk og sér ekki fyrir endann á þessu. Á sama hátt sjáum við ríki eins og Norður-Kóreu og Íran sem búa við þannig stjórnarfar og áherslur að menn geta ekki annað en haft áhyggjur af því, sérstaklega í ljósi þess að þau ríki eru að eða eru búin að koma sér upp kjarnorkuvopnum.

Það stöðugleikatímabil sem ríkt hefur eftir lok kalda stríðsins er ekki jafn stöðugt og það hefur verið. Það er eitthvað sem við verðum að fylgjast vel með og huga sérstaklega vel að öryggi og öryggismálum okkar almennt. Við Íslendingar höfum verið svo lánsamir að við höfum ekki háð stríð við aðrar þjóðir, við höfum verið laus við hryðjuverk og alla jafna hefur verið mjög friðsælt hér. En ekkert slíkt er algjörlega öruggt og það er betra að hafa vaðið fyrir neðan sig. Þess vegna er samstarf okkar innan NATO jafn mikilvægt nú sem áður og vonandi berum við gæfu til að vera varkár þegar kemur að þeim mikilvægu málum.

Virðulegi forseti. Það hefur mikið verið rætt um Evrópusambandið af ástæðu og ég fullyrði að við Íslendingar höfum algjöra sérstöðu þegar kemur að umræðu um Evrópusambandið. Hér hefur því verið haldið fram af fullri alvöru að það sé engum vafa undirorpið hvað felist í því að vera í Evrópusambandinu, en það er auðvitað hin fullkomna firra. Það eru 28 ríki í Evrópusambandinu, sem í grunninn er tollabandalag, og það er engin önnur þjóð en Íslendingar sem hefur sótt um aðild til að kanna hvað felst í því að vera í sambandinu.

Hér hafa verið gefnar út skýrslur sem í eru viðtöl við hina mætustu menn. Fræðimenn telja eðlilegt að menn vitni í samtöl við aðila sem þeir þekkja, hvort sem það eru stjórnmálamenn eða fræðimenn. Ég fullyrði eftir mín fjölmörgu viðtöl, ég hef verið í áratug í alþjóðlegu samstarfi, síðustu ár sem formaður þingmannanefndar EFTA og formaður nefnda þingsins sem eiga samstarf við Evrópusambandið, að ég hef aldrei hitt embættismann eða erlendan stjórnmálamann sem telur það vera vafa undirorpið hvað felst í því að vera í Evrópusambandinu.

Af hverju er ég að tala um þetta? Vegna þess að meðan menn eru með slíkar ranghugmyndir, sem ég hef kallað samkvæmisleik Samfylkingarinnar, verður umræðan afskaplega ómarkviss. Það er miklu betra að þeir sem vilja ganga í Evrópusambandið komi skýrt fram og færi fyrir því rök. Ég er búinn að finna einn hv. þingmann, hv. þm. Róbert Marshall, sem vill kannast við það að vilja ganga í Evrópusambandið. Hann telur að Íslandi sé betur borgið innan Evrópusambandsins og það er hægt að ræða við hv. þingmann um málið. Aðrir eru ekki á mælendaskrá þegar kemur að þessu máli meðan þeir halda því fram að þetta sé allt saman svo óljóst. Við erum búin að gefa út fleiri skýrslur, nú nýlega hjá Alþjóðamálastofnun og sömuleiðis Hagfræðistofnun, sem eru góður grunnur að málefnalegri umræðu ef menn vilja hana. Ef menn vilja hins vegar sífellt ræða formið verður umræðan eins og hún hefur verið undanfarna daga og undanfarnar vikur og undanfarin missiri; ómarkviss, ómálefnaleg og byggir ekki á staðreyndum.

Ég get alveg fallist á að ríkisstjórnin, sem ég styð einarðlega, hafi gert mistök í málinu og ég tek sem dæmi að hæstv. utanríkisráðherra, sem hefur verið mjög duglegur að tala við hv. utanríkismálanefnd, hefði átt að gera það áður en hann fór með bréfið, það finnst mér augljóst. Við eigum að hafa það sem almenna reglu að hafa vinnubrögð sem við erum sátt við. En það breytir engu um eðli málsins. Það snýst um það hvort við viljum ganga í Evrópusambandið eða ekki. Það er alveg augljóst að ekki er þingmeirihluti fyrir því að ganga í Evrópusambandið. Þar af leiðandi er vægast sagt snúið að fara í aðildarviðræður við ríkjasamband sem menn vilja ekki vera í. Það hlýtur hver maður að sjá það. Gefum okkur að við færum í þá vegferð og viðkomandi ráðherra mundu ljúka viðræðunum, sem snúast fyrst og fremst um að aðlögun að Evrópusambandinu, eiga þeir þá að skrifa undir slíkt og tala fyrir slíkum samningi?

Ég sagði einu sinni þingmanni frá Svíþjóð frá því hver staðan væri, þetta var á síðasta kjörtímabili, að við værum að sækja um til að kanna hvað væri í boði. Þingmaðurinn horfði á mig, Evrópuþingmaðurinn sem var mikill aðildarsinni og taldi að Ísland ætti að ganga í Evrópusambandið, og sagði: Bíddu, ertu í alvöru að segja að enginn tali fyrir því að Ísland gangi í Evrópusambandið? Já, ég sagði það. Málið snýst um að stjórnarliðar segjast vilja kanna hvað sé í boði og ætla svo að sjá til. Hann horfði á mig og sagði: Þið getið ekki gert okkur þetta. Við eyðum milljörðum og leggjum í þetta mikla vinnu og annað slíkt og þið komið fram við okkur á þennan hátt.

Virðulegi forseti. Það er áhugavert að sjá núna eftir að hæstv. utanríkisráðherra benti á hið augljósa, að þessi ríkisstjórn hefur ekki þingmeirihluta til að ganga í Evrópusambandið, hversu skýrt kemur í ljós að Evrópusambandinu er mikið í mun að fá okkur inn. Menn hafa talað eins og þetta sé okkar síðasti séns að ganga í Evrópusambandið. En þeir vilja augljóslega leggja mikið á sig til þess að Ísland gangi í Evrópusambandið. Ástæðan er augljós: Við erum eitt þeirra ríkja sem mundu borga með sér í Evrópusambandið. Það hafa verið gerðar nokkrar kannanir, að vísu eldri, varðandi hverju það munar í milljörðum og getur hver sem er sem er með aðgang að internetinu flett því upp. Síðan geta menn líka skoðað framlög einstakra ríkja, bæði miðað við mannfjölda og hvað menn fá, hverjir eru í plús og hverjir í mínus, og þau lönd sem við berum okkur saman við greiða eðli málsins samkvæmt mikið með sér. Við veitum ESB að vísu þróunaraðstoð í gegnum þróunarsjóð EFTA en við mundum þurfa að greiða miklu, miklu meira ef við gengjum í tollabandalagið.

Á sama hátt væri það auðvitað mikill fengur fyrir Evrópusambandið ef við færum í sameiginlegu sjávarútvegs- og landbúnaðarstefnuna sem þýddi að yfirráð yfir sjávarútvegsauðlindinni færðust yfir til Brussel, þótt auðvitað sé það rétt sem bent er á að við hefðum eðli máls samkvæmt eitthvað um málið að segja, í það minnsta um það sem snýr að lögsögu okkar þó að flökkustofnarnir yrðu undir sameiginlegri stjórn Evrópusambandsins eins og menn þekkja.

Svo maður sé sanngjarn hafa sumir aðildarsinnar verið málefnalegir og einn er Jón Sigurðsson, fyrrverandi rektor Háskólans á Bifröst. Hann skrifaði ágætisgrein þar sem hann tiltók hinar svokölluðu undanþágur. Ég skil ekki af hverju menn skoða ekki hvað liggur þar að baki,. Ég gerði það sjálfur og hvet þá sem hafa áhuga á Evrópumálum til að skoða nákvæmlega hvað um að var ræða. Þetta eru ekki undanþágur heldur sérreglur innan sameiginlegrar stefnu eins og í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum. Það er stór munur þar á, því að ef þú ert inni í sameiginlegri stefnu, sama hver hún er, er hægt að breyta henni með meiri hluta viðkomandi ríkja. Þótt í einhverjum tilfellum sé um neitunarvald að ræða hjá einstökum ríkjum er það nokkuð sem fer þverrandi og þar er líka krafan sú að neitunarvaldið og allt slíkt minnki með tímanum.

Virðulegi forseti. Það er áhugavert að skoða hvaða deilur eru uppi í Evrópusambandinu, stóru deilurnar, sem ég næ því miður ekki að koma að á þeim tíma sem ég hef, sem snúa að Grikklandi og hugsanlega fleiri löndum og fjármálakrísunni og auk þess stöðunni sem kom upp í Bretlandi. Það er ljóst að David Cameron treysti sér ekki til að leggja óbreytta (Forseti hringir.) aðild Bretlands að Evrópusambandinu fyrir kjósendur. Hann vill semja (Forseti hringir.) um hana upp á nýtt. Það mun að sjálfsögðu þýða gjörbreytta stöðu í Evrópu.