144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[16:36]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef margt við ræðu hv. þingmanns að athuga. Ég ætla ekki að eyða tíma okkar í það að stæla um fortíðina eða takast á um einhverjar staðreyndir. Við vitum það báðir, ég og hv. þingmaður, að tekist er á um Evrópusambandsmálið. Það eru skiptar skoðanir, mjög skiptar skoðanir eru í hans flokki til að mynda. Spurningin er: Hvers vegna ekki að útkljá málið í eitt skipti fyrir öll? Hv. þm. Birgir Ármannsson hefur velt því upp hér, að mér hefur fundist, og gælt við þá hugmynd í ræðum sínum síðustu daga. En það sem kom mér á óvart og gladdi mig var það að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að hann lokaði ekki á neitt. Hann orðaði það á eftirfarandi hátt: Það er engum dyrum búið að loka og ég er enn þeirrar skoðunar, sagði hann, að þjóðin eigi að koma að málinu. En hann, líkt og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, sagði að erfitt væri að hugsa sér ríkisstjórn sem er á móti málinu gera samninga. Gott og vel.

En af hverju gerum við þá ekki eitt í sameiningu og ég bið um afstöðu hv. þingmanns til þess. Hvers vegna ekki að útkljá málið í þjóðaratkvæðagreiðslu og haga henni þannig að hinn meinti ómöguleiki verði ekki að veruleika, þ.e. við gætum til dæmis hugsað okkur afbrigði af þeirri þingsályktunartillögu sem liggur núna fyrir af hálfu stjórnarandstöðunnar? Til samkomulags væri ég alveg til í að skoða með hv. þingmanni þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða þingkosningum. Þá mundi það þýða að málið yrði útkljáð og engin ríkisstjórn þyrfti að standa frammi fyrir hinum meinta ómöguleika. Þá mundu menn væntanlega mynda ríkisstjórnir á niðurstöðu slíkra kosninga. Þá yrði búið að klára þetta mál í eitt skipti fyrir öll.