144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[16:41]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Við höfum mörgum sinnum farið í gegnum það mál, ég get það ekki á tveimur mínútum.

Mér þykir miður ef það er þannig að hv. þingmaður treystir sér ekki til að taka undir með formanni Sjálfstæðisflokksins um að þjóðin eigi að hafa aðkomu að málinu. Nú er ég ekki að vísa til eins eða neins sem formaður Sjálfstæðisflokksins sagði í fortíðinni, hann sagði þetta í gær á Stöð 2. Svo virðist sem það séu fleiri en hv. þm. Birgir Ármannsson sem gera ágreining við formann Sjálfstæðisflokksins sem tengist þessu máli þó að það sé ekki bókstaflega þetta sem hv. þm. Birgir Ármannsson gerði ágreining um.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að á sínum tíma voru þeir stjórnarflokkar sem þá voru við völd ekki þeirrar skoðunar að rétt væri að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort ætti að sækja um. Menn töldu að það væri nóg og lýðræðið tryggt með því að leyfa þjóðinni að greiða atkvæði um samninginn, þá hefði hún allt á borðinu og gæti kosið um hann. Þetta er sama aðferð og var viðhöfð í nánast öllum ríkjunum sem gengu í Evrópusambandið, þó ekki öllum, sum fóru þar inn án þjóðaratkvæðagreiðslu. Við höfum, eins og hv. þingmaður benti á, staðið frammi fyrir því að ágreiningur er um málið. Hvers vegna ekki að útkljá það með þessum hætti? Hvers vegna ekki að taka í þessa útréttu sáttarhönd? Við teygjum okkur til samkomulags með þessu. Þá þarf hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson ekki að horfa framan í þann gapandi veruleika að hugsanlega verði hann afganginn á þingmannstíð sinni, sem ég vona að verði löng, jafnan utan ríkisstjórnar. Því að ljóst er að sú leið sem menn velta fyrir sér núna leiðir bara til eins; til klofnings Sjálfstæðisflokksins. Ég óska Sjálfstæðisflokknum þess alls ekki. Ég vildi miklu frekar að hægt væri að ná sátt um meðferð málsins svo að allir gætu vel við unað. Þá er aldrei að vita nema hv. þingmaður yrði einhvern tímann, jafnvel af mér, úr þessum ræðustól aftur kallaður hæstvirtur.