144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[16:58]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka spurninguna. Það er tvíþætt. Í fyrsta lagi er, eins og hv. þingmaður kom inn á, samstarf við önnur ríki og sérstaklega Norðurlönd, ekkert eingöngu við Norðurlöndin en þó sérstaklega þau.

Eitt sem við gætum gert sjálf án aðkomu annarra og ættum að efla og ég tel fullan áhuga á því að efla hér er netöryggissveit Póst- og fjarskiptastofnunar, sem brátt mun heyra undir almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Sú sveit er undirmönnuð og ég tel verkefni hennar ekki vera alveg nógu vel skilgreind eins og er. En það er misjafnt á milli landa hvaða hugbúnaður er almennt notaður. Sem dæmi er mikil notkun á Linux-netþjónum og Windows-netþjónum hérlendis. Á öðrum stöðum geta menn almennt verið að nota önnur kerfi. Við notum mjög mikið af Word Press, sem er vefumsjónarkerfi. Annar hugbúnaður sem heitir Django er mikið notaður. Þetta breytist mjög hratt milli ára. Það er alltaf sífelld samkeppni í hugbúnaðarmálum.

Það sem þessi sveit ætti að mínu mati að gera og ætti að hafa sem höfuðverkefni er að fylgjast með því með einhverjum hætti, með samtölum við iðnaðinn og fólk á netinu sem notar þennan hugbúnað, hvaða útgáfur sé verið að nota af þessum hugbúnaði og fylgjast síðan með uppfærslum og öryggisfréttum sem varða þennan hugbúnað. Þvert á það sem margir halda á eru öryggisgallar mjög algengir og eru sífellt að koma upp nýir gallar en þeir eru lagaðir jafnóðum. Það mikilvægasta sem við gætum gert er að fylgjast mjög vel með þessu á miðlægum stað til þess að upplýsa þá aðila sem að nota þann hugbúnað um að komin sé uppfærsla við þessum og hinum galla, þannig að það helsta hlutverk þessarar sveitar sé að fylgjast með því hvaða hugbúnað verið er að nota, hvernig staðan er á öryggismálum á þeim hugbúnaði og standa að upplýsingu og umræðu hjá iðnaðinum og einstaklingum hér á landi um það.