144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[17:02]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Prýðileg spurning. Maður þyrfti nú meiri tíma til þess að ræða þetta alveg í hengla. Mig langar að svara síðari spurningu hv. þingmanns fyrst vegna þess að hún varðar grundvallarprinsippin, þ.e. persónuvernd á móti öryggi. Sú spurning er ekki stór þegar kemur að því að verja innviði í tölvuöryggismálum. Það er í raun heppilegt vegna þess að tölvuöryggismál eru ekki eins og öryggismál gagnvart hryðjuverkum eða átökum milli þjóða eða því um líkt að því leyti að slík átök virka almennt þannig að togstreita er á milli frelsisins og öryggisins.

Þegar kemur að því að styrkja innviði í upplýsingatækni er sú togstreita ekki til staðar vegna þess að aðferðirnar sem beitt er ganga ekki út á það að reyna að finna út fyrir fram hver er að reyna að ráðast á mann. Maður veit bara að það eru tugir milljóna manna sem aldrei sofa og eru með endalausan pening og fullt af snjöllum mönnum í vinnu. Þeir eru alltaf að ráðast á fólk, stanslaust, bara alltaf. Og það er veruleikinn sem maður vinnur í þegar maður vinnur á netinu, hvort sem fólk áttar sig á því eða ekki.

Þá förum við í fyrri spurningu hv. þingmanns sem varðar það hvernig hægt sé að tryggja upplýsingaflæðið milli einkaaðila og netöryggissveitarinnar, eða hvernig svo sem því miðlæga fyrirbæri er háttað. Nú vill svo til að stærstu aðilarnir á Íslandi, opinberir aðilar sem einkaaðilar, vilja hafa þetta í lagi. Þeir vilja vera vel upplýstir þannig að ég tel fulla ástæðu til að ætla að þau samskipti yrðu mjög góð, að einkaaðilar mundu skrá sig og gera einfaldan lista yfir helsta almenna hugbúnaðinn sem þeir nota og láta netöryggissveitina vita: Við erum að nota þennan hugbúnað, vinsamlegast látið okkur vita ef eitthvað kemur upp á eða ef einhver nýr og skelfilegur galli finnst eða bara mjög mildur galli í einhverjum af þessum hugbúnaði.

Sömuleiðis sé ég alveg fyrir mér að netöryggissveitin gæti haft frumkvæðiskannanir að þessu leyti með því einfaldlega að spyrja til dæmis stóra aðila eins og Símann eða opinberar stofnanir: Hvað notið þið? Hérna er það sem við erum að fylgjast með. Það samtal held ég að gæti alveg (Forseti hringir.) átt sér stað án þess að það þurfi að neyða einn eða neinn til þess að gera nokkurn skapaðan hlut.