144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[17:14]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir málefnalega og góða ræðu og get tekið undir margt sem þar kom fram. Ég held að við þurfum að vera mjög vakandi þegar kemur að framkvæmd EES-samningsins. Settir voru auknir fjármunir í utanríkismálin til þess að fylgjast með EES-samningnum núna við síðustu fjárlagagerð, þetta voru um 40 milljónir ef ég man rétt. Ég tel að vísu að við eigum að taka upp starfshætti Noregs og við höfum fengið kynningu á því hvernig norska Stórþingið vinnur þetta. Ég held að mjög mikilvægt sé að þingið sé með betri fókus, á slæmri íslensku, á þetta. Ég hef af því áhyggjur að skipulag okkar í þinginu sé ekki nógu gott. Ég tel að við ættum að hafa sérnefnd sem héldi utan um þessi mál, þ.e. EES-nefnd sem væri sérstök þingnefnd og utanríkisnefnd væri þá með annað sem snýr að utanríkismálum. Þetta er mál af þeirri stærðargráðu að það verður að vakta það mjög vel og við höfum ekki alltaf get það. Auðvitað snýr þetta ekki bara að Íslandi. ESB er meðal annars í vandræðum, þessum miklu vandræðum, út af skriffinnskunni, út af því sem kallað er á ensku „red tape“ sem hefur gert það að verkum að samkeppnishæfni ESB hefur ekki verið eins og þeir vilja sjálfir. Þeir hafa aldrei náð þeim markmiðum sem þeir hafa lagt upp með varðandi samkeppnishæfni sína. Þetta fyrirkomulag Evrópusambandsins er augljóslega meingallað, ef menn eru að reyna að ná því að verða einhvers konar bandaríki Evrópu en hafa ekki hannað fyrirkomulagið þannig, þess vegna erum við með þetta sérkennilega Evrópuþing og við erum með æðsta manninn sem var kosinn síðast en var ekki í framboði og enginn veit hver er (Forseti hringir.) o.s.frv. En ég er sammála hv. þingmanni. Við þurfum að vera vakandi þegar kemur að EES-samningnum.