144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[17:19]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála mjög mörgu sem kemur fram hjá hv. þingmanni en er aðeins að melta það hvort ég vilji ekki viðurkenna hvað ég veit mikið um Evrópusambandið. Ég hef skoðað það mjög mikið og verið tíður gestur í Evrópuþinginu, talað við marga Evrópuþingmenn, á vini og kunningja þar og veit nokkurn veginn hvernig þau mál þróast. Við höfum akkúrat þennan möguleika á fyrstu stigum sem við höfum ekki nýtt. Við getum líka haft óformlegt samband eða formlegt samband við þingmennina. En Evrópuþingið, með fullri virðingu, er fullkomið grín. Þótt við værum með fimm þingmenn þar værum við ekkert að fara að snúa þessu í einhverja hringi, það er bara ekki þannig. Það trúir manni enginn þegar maður segir sögur af hv. Evrópuþinginu vegna þess að það getur ekki verið að vestræn ríki hafi komið sér upp slíku fyrirkomulagi. Evrópuþingið getur ekki gert neitt að eigin frumkvæði, það þarf að taka við því sem kemur frá framkvæmdastjórninni og það er illa skilgreint hverjir kjósa framkvæmdastjórnina. Evrópusambandið er embættismannadraumur. Valdið er mjög langt frá fólkinu og það er engin tilviljun að allar skoðanakannanir skuli sýna að Evrópusambandið verður sífellt óvinsælla hjá Evrópuþjóðunum. Það er augljóst að skera þarf þetta mál allt saman upp. Ef við gengjum í Evrópusambandið þyrftum við að taka miklu meira af því sem við viljum ekki en við þurfum núna. En við getum haft áhrif. Ég veit það sjálfur, af því að ég hef af því reynslu, að hægt er að hafa áhrif en við verðum þá að vinna skipulega. En guð forði okkur frá því að ganga í Evrópusambandið. Þótt við værum með fimm þingmenn af 755 eða hvað þeir eru margir á Evrópuþinginu, þótt þeir væru góðir, þótt það væru hv. þingmenn Valgerður Bjarnadóttir og Össur Skarphéðinsson gætum við ekki tekið það ágæta þing í gíslingu.