144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[17:23]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að þessu sinni að blanda mér í tilfinningaþrungnar deilur um Evrópusambandið, kosti þess og galla. Tilefni þess að ég óska eftir andsvari við hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur er það sem lýtur að aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu og samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði. Ég vildi geta þess hér í tilefni af orðaskiptum sem áttu sér stað á undan að vissulega hafa vinnubrögð í þinginu varðandi meðhöndlun EES-mála verið tekin upp eða lagfærð á undanförnum árum. Grunnurinn að því var lagður 2007 eða 2008, að því er mig minnir, í formennskutíð Bjarna Benediktssonar í utanríkismálanefnd. Sú þróun hélt áfram á síðasta kjörtímabili. Við höfum líka í utanríkismálanefnd í dag verið að reyna að bæta vinnulagið í þeim efnum, eiginlega með þau metnaðarfullu markmið að bæði auka skilvirkni en um leið tryggja betri málefnalega yfirferð yfir þau mál sem okkur er falið að skoða. Það hefur meðal annars verið gert með því að þátttaka einstakra fagnefnda þingsins á mismunandi málefnasviðum hefur verið aukin. Þetta hefur vissulega í sumum tilvikum þyngt ferlið, en við höfum engu að síður reynt að gera þetta betur en verið hefur og fylgjum þar í fótspor fyrri utanríkismálanefndar og reynum að læra ef þeirri reynslu.

Varðandi hugmyndina um sérstaka Evrópunefnd þingsins tel ég að hún sé vel athugunarverð og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson og fleiri hafa fært fín rök fyrir þeirri skoðun.