144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[17:32]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég er að koma hingað í aðra ræðu mína sem er ekki lengri en fimm mínútur að hámarki. Ég vék að ýmsum þáttum í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra í fyrri ræðu minni, nefndi Palestínu, mannréttindamál, Atlantshafsbandalagið, Úkraínu og að lokum vék ég að alþjóðaviðskiptasamningum sem við eigum í og langaði til að fara nokkrum orðum um þann síðasta sem við höfum gengið inn í, það er hinn svokallaði TiSA-samningur, Trade in Services — nú er það dottið úr mér hvað hann heitir. Aðkomu að þessum samningi eiga 50 ríki, 28 ríki Evrópusambandsins og síðan 22 önnur ríki. Við hófum viðræður formlega sumarið 2013. Þá fórum við á fullu inn í þessar samningaviðræður. Ég vil taka fram að það er ekkert endilega auðvelt að segja sig frá samningaferli af þessu tagi. Þetta er okkar heimshluti. Þetta eru Evrópuríkin. Þetta eru Bandaríkin. Þetta eru Norðurlandaþjóðirnar. Þetta eru þau ríki sem við eigum í nánustu samskiptum og viðskiptum við. Þannig að það þarf að stíga ákveðið skref vilji menn segja sig frá þessu sem getur verið erfitt að stíga.

Ég hallast að því að við eigum að gera það. Ástæðan er sú að ég tel aðkomu okkar þarna og allra þessara ríkja ekki standast siðferðislegar kröfur. Eftir að GATS-samningarnir strönduðu 2008 fóru þessi ríki, fyrst minni hópur með Bandaríkin í broddi fylkingar, að rotta sig saman, kölluðu sjálf sig Really Good Friends of Services, góðvinir viðskiptasamninga, og töldu sig geta verið að grínast með þetta í leyni eins og þetta var allt í upphafi, eins og allir þessir samningar hafa verið.

Það er fátæki hluti heimsins sem stendur þarna fyrir utan og hefur reynt að streitast á móti þessari þróun. Það er vikið ágætlega að þeim breytingum sem orðið hafa á alþjóðlegum viðskiptasamningum í tímans rás í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra. Það er til dæmis gert með skírskotun til EFTA-samningsins sem á sínum tíma var fyrst og fremst samningur um tolla, um að opna markaði. Síðan segir að smám saman hafi þeir farið að dýpka, eins og það er kallað, farið að snúa að þjónustuviðskiptum og beitingu samkeppnisreglna. Hvað þýðir það? Það þýðir að ekki sé nóg að opna markaðinn heldur undirgangist samfélagið það líka að allir sitji við sama borð, að niðurgreiðslur til dæmis eða hvers kyns stuðningur verði bannaður. Það er þarna sem velferðarþjónustan, ef hún fer inn á þetta borð, verður svo viðkvæm. Ef hún er orðin að viðskiptavöru sem ekki má veita neinn samfélagslegan stuðning.

Nú veit ég að í þessum samningum hefur verið talað um að halda heilbrigðisþjónustunni utan dyra á sama hátt og gagnvart þjónustutilskipun Evrópusambandsins, en það á við um grundvallarþætti heilbrigðisþjónustunnar. Aðrir þættir, til dæmis þrif á spítölum — stjórnsýslan í tengslum við velferðarþjónustuna, hún er komin á markað — það fer á markað. Það er það sem gerir þetta svo viðkvæmt allt saman. Þess vegna þarf gríðarlega umræðu í þjóðfélaginu áður en við undirgöngumst nokkuð.

Síðan er eitt sem ég vék aðeins að í lok míns máls áðan, þ.e. að í stað þess að láta dómstóla einstakra ríkja útkljá deilumál þá er farið inn á þá braut að búa til gerðardóma sem fyrirtæki (Forseti hringir.) koma að og ríkin standa utan við. Þetta er óafturkræft allt saman.(Forseti hringir.) Það er því sama hvernig á þetta er litið, við eigum að forða okkur út úr þessu ferli (Forseti hringir.) og taka upp þráðinn aftur með öðrum þjóðum sem áttu og eiga aðkomu að GATS.