144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[17:38]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er nú margt í þessari umræðu sem hefur lítið verið rætt. Mér heyrðist hv. þm. Ögmundur Jónasson ræða hér aðeins um allra handa samstarf. Ég held hann hafi ekki nefnt orðið TTIP, en það er hins vegar eitt af þeim stóru málum sem við verðum að ræða og þýðir mikil tækifæri fyrir okkur Íslendinga. Við Íslendingar værum enn fátækasta þjóð Vestur-Evrópu ef við hefðum ekki aðgang að erlendum mörkuðum.

Það er sorglegt að ekki hafi náðst að klára nýju umferðina í WTO-viðræðunum, og engir munu tapa meira á því en fátækustu ríki heimsins. Vegna þess að það hefur ekki gengið upp hafa Bandaríkjamenn haft forgöngu um að fara annars vegar í stórar samningaviðræður við Kyrrahafslöndin og síðan ESB. Það mun, út af Evrópska efnahagssvæðinu, að stærstum hluta hafa jákvæð áhrif á okkur, en hins vegar er það umhugsunarefni væntanlega vegna þess að Evrópuríkin — við í EFTA erum kannski ekki stærstu leikmennirnir á þeim leikvelli en hins vegar getum við haft áhrif. Væntanlega er ein ástæðan fyrir því að ekki náðist niðurstaða hjá WTO að Evrópusambandið sýndi ekki nægilegt frumkvæði. Þeir aðilar sem hafa sýnt frumkvæði að því og komið samningum þar í gegn eru Bandaríkjamenn. Evrópusambandið er eðli máls samkvæmt tollabandalag með gamaldags merkantilíska hugsun sem maður var að vona að væri liðin tíð en er það því miður ekki.

Það gæti komið hér og það mun væntanlega styrkja stöðu Bandaríkjamanna að vera stóri aðilinn beggja vegna, bæði við Atlantshafið og Kyrrahafið. Það er mikilvægt fyrir okkur að fylgjast vel með þeirri þróun og reyna líka að gera eins marga fríverslunarsamninga og við mögulega getum, bæði á vettvangi EFTA, þar höfum við mikil tækifæri, en sömuleiðis sjálfir. EFTA er aðili sem allir vilja semja við. Við erum tiltölulega lítil samtök, en þó með öflug ríki eins og Sviss og Noreg og við erum svo sem mikilvægur markaður fyrir ýmsa aðila líka, þarna eru miklir möguleikar.

Virðulegi forseti. Hér var talað um Evrópusambandið og áhrifin. Besta samlíking sem ég finn með Evrópusambandið er að Evrópusambandið sé eins og stigagangur. Sumt er í sameigninni og annað er bara hjá viðkomandi einstaklingum. Ef við færum inn í Evrópusambandið þá settum við hluti inn í sameignina sem skipta litlu máli fyrir margar þjóðir en miklu máli fyrir okkur. Við settum til dæmis sjávarútvegs- og landbúnaðarmálin, við settum viðskiptamálin, sem gerir að verkum að við hefðum til dæmis ekki getað samið við Kína — hv. þm. Össur Skarphéðinsson lokaði nú þeim samningum og var það vel gert. En við hefðum ekki getað gert það ef við værum í tollabandalagi með Evrópusambandinu.

Ég hvet alla til að kynna sér Evrópuþingið og helst heimsækja það og sjá hvers konar fyrirkomulag er þar. Þó að menn eigi þann draum að verða einhvers konar stórveldi og líta til Bandaríkjanna, þá felst munurinn á Evrópusambandinu og Bandaríkjunum í því að í stjórnkerfinu í Bandaríkjunum ertu með það sem kallast „checks and balances“, en það er ekkert slíkt fyrirkomulag í Evrópusambandinu. Sá sem er æðstur, Juncker, fyrrverandi forsætisráðherra Lúxemborgar, á þeim bæ var ekki einu sinni í framboði og fæstir vissu hver hann væri þó að hann sé forseti framkvæmdastjórnarinnar. Fæstir af kjósendunum, ég held að það hafi verið 8% eða 6%, vissu hver hann er. Það sýnir líka hvað menn eru á sérkennilegum stað að þingið er á tveimur stöðum, í Brussel og í Strassborg. Einu sinni í mánuði fer allt dæmið bara frá Brussel yfir til Strassborgar. Þegar það byrjaði þá voru menn með miklar lestir af vörubílum vegna þess að það var svo mikill pappír. Pappírinn er farinn en vörubílalestin fer áfram. Þetta hljómar eins og gamansaga, en þetta eru hins vegar staðreyndir. Það er væntanlega út af frönsku verkalýðshreyfingunni, hún vill ekki stöðva þá vinnu sem þarna er til staðar. Þannig að það eru meira og minna tómar vöruflutningalestir sem keyra á hverjum einasta mánuði á milli Brussel og Strassborgar.

Þar, virðulegi forseti, er ekki farið vel með fjármuni. Nú er það reyndar þannig að stór hluti, um 5%, af (Forseti hringir.) útgjöldum Evrópusambandsins er eitthvað sem endurskoðendur treysta sér ekki til að skrifa upp á (Forseti hringir.) af því þeir ekki hvert það fer. Þetta eru ein og hálf fjárlög íslenska ríkisins.