144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[17:45]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður hefur ekki alveg hlustað á ræðu mína, en allt í góðu með það. Í fyrsta lagi er það algjörlega óumdeilt að það er hagur fátækustu ríkjanna að fá aðgang að ríkustu mörkuðunum. Ef einhver heldur öðru fram þá er það mjög róttæk skoðun. Hugsum okkur Ísland. Ef við hefðum ekki aðgang með fiskinn okkar að mörkuðum, hvað þýddi það fyrir afkomu okkar, eða með aðrar útflutningsvörur? Við værum fátæk. Það er ekkert flóknara en það.

ESB er tollabandalag. Það er sameiginleg tollastefna. EFTA er ekki tollabandalag. Þar getur hvert ríki ráðið sínum tollum, en það er sameiginleg viðskiptastefna í Evópusambandinu og þeir eru með þá hugsun, sem er mjög gamaldags, að þeir séu með svo ríkan markað að menn þurfi einhvern veginn að kaupa aðgang að honum. Er það þvert á hugmyndir sem Adam Smith var með á sínum tíma sem ég var að vona að væru nú orðnar gegnumgangandi en svo var ekki.

Hins vegar er rétt hjá hv. þingmanni að nútímaviðskiptasamningar ganga að minnstum hluta, alla vega milli hinna þróuðu ríkja, út á tolla, því að alla jafna hafa tollarnir farið niður. Hins vegar eru ýmsar tæknilegar hindranir komnar upp. Eitt er þjónustuviðskipti sem hv. þingmaður nefndi, en síðan erum við til dæmis í viðskiptablokk með ESB út af EES-samningnum. Þá eru til dæmis tæknilegar hindranir sem við getum séð þegar við kaupum bandarískar vörur, þá þarf að líma sérstaka miða á vörurnar, þó að þær uppfylli öll skilyrði, vegna þess að innihaldslýsingin er ekki nákvæmlega tilgreind eins og á að gera samkvæmt stöðlum Evrópusambandsins. Það sem hefur gerst í Evrópusambandinu — upphaflega átti þetta að vera innri markaður þannig að opnað væri sérstaklega fyrir vörur — er að skrifræðið hefur tekið yfir og menn eru nú að samræma alla hluti. Hlutir sem höfðu lengi verið í sölu í einu landi uppfylltu allt í einu ekki staðla Evrópusambandsins.