144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[17:50]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er einhver misskilningur. EFTA hefur aldrei verið tollabandalag. Tollabandalag felst í því að sameiginlegir tollar eru hjá viðkomandi ríkjabandalögum. ESB hefur alltaf verið tollabandalag. Það heitir sameiginleg viðskiptastefna. Hvert ríki innan EFTA er með sér viðskiptastefnu. Hv. þingmaður getur bara flett því upp ef hann trúir þessu ekki. EFTA hefur aldrei verið tollabandalag.

Síðan það af hverju viðræðurnar fóru í strand árið 2008 bendir hver á annan hvað það varðar, hverjum það er um að kenna o.s.frv. eins og vanalega er í þessu. Varðandi dómstólana undirgangast öll þau ríki sem eru aðilar að Alþjóðaviðskiptastofnuninni, WTO, dómstóla Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Dómstólarnir fara þannig fram, eins og hv. þingmaður var að vísa í, að svokallaður panel er kallaður saman, svona ekkert ósvipað og í NAFTA-fyrirkomulaginu, og viðkomandi ríki þurfa að hlíta niðurstöðunni. Ef ég man rétt er þetta þannig, virðulegi forseti, að það koma tveir frá hvorum deiluaðila, síðan kemur oddamaður einhvers staðar annars staðar frá. Í frægri deilu Evrópusambandsins og Bandaríkjanna, frekar en Bandaríkjanna og Rússa, um stál var Stefán Haukur Jóhannesson, núverandi ráðuneytisstjóri, sem vann mikið í Alþjóðaviðskiptastofnuninni, oddadómarinn í þeirri deilu. Það er ekki nýtt að alþjóðlegur dómstóll sé í viðskiptamálum. Það er í rauninni ekki hægt að framkvæma það öðruvísi. (Gripið fram í: … Viðskiptastofnunin er síðan 1995 …) Virðulegi forseti. GATS-fyrirkomulagið er frá 1948 (Gripið fram í.) — hv. þingmaður hefur alltaf, virðulegi forseti, haft leiðir til þess að leiða mál til lykta. En ef það er nýtt, eitthvað sem er frá 1995, virðulegi forseti, þá hvet ég hv. (Forseti hringir.) ágætan þingmann Ögmund Jónasson til að líta á ártalið.