144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[17:52]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér skýrslu hæstv. utanríkisráðherra Gunnars Braga Sveinssonar um utanríkis- og alþjóðamál. Fyrst vil ég segja að það er afar mikilvægt og gagnlegt að við ræðum utanríkismál í víðu samhengi á grundvelli slíkrar samantektar sem þessi skýrsla er. Það dylst engum hversu háð við erum utanríkisviðskiptum í raun á öllum sviðum viðskipta og mannlífs. Ég lít svo á að það sé jákvæð og mikilvæg aðferð að halda umræðu út frá skýrslu sem þessari, enda umræðan öll hin besta og dregur fram stöðu og stefnu Íslands í samfélagi þjóðanna. Þannig verður umræðan í fastara formi og upplýsingamiðlun ráðuneytisins til Alþingis og þjóðarinnar markvissari. Ég fagna því skýrslu hæstv. ráðherra og honum fyrir hana.

Þetta hefur sannarlega birst í dag í góðum ræðum og efnisríkri umræðu. Skýrslan er mikil að umfangi og kemur víða við. Ég hef, virðulegi forseti, áhuga á að koma sérstaklega inn á borgaraþjónustuna og mikilvægi alþjóðlegs viðskiptasamstarfs, sér í lagi EES-samninginn.

Umfang borgaraþjónustunnar, sú vernd og sá stuðningur sem hún veitir okkur borgurum, hefur aukist á liðnum árum, þ.e. lagabundni þátturinn í utanríkisþjónustu okkar hefur vaxið jafnt og þétt í takt við aukningu í ferðalögum landans og þá staðreynd að talsverður fjöldi hefur flust búferlum á liðnum árum og sest að erlendis til að vinna, til að mennta sig eða bæta hag sinn með öðrum hætti, en samkvæmt hagstofunni eru um 43.000 íslenskir ríkisborgarar búsettir erlendis. Í skýrslunni kemur jafnframt fram að í heildina er áætlað um 30.000 erindi berist á hverju ári til sendiráðanna og aðalskrifstofu ráðuneytisins. Til áréttingar umfanginu höfðu um 600 erindi borist sendiráðinu í London síðastliðinn janúar.

Ýmislegt hefur verið gert til þess að bæta þjónustuna og meðal annars komið á bakvakt allan sólarhringinn vegna neyðartilvika erlendis og neyðaráætlun jafnframt komið á vegna mögulegs hættuástands erlendis þar sem viðbragðshópur er tilbúinn ef kemur til þess að virkja þá áætlun. Utanríkisþjónusta okkar er kannski fámenn en, virðulegi forseti, hún er öflug og ég leyfi mér að fullyrða að borgaraþjónustan og það skipulag sem við höfum þróað þar sýni okkur hversu öflug hún er og hve vel hún hefur náð að þroskast og eflast á liðnum árum og áratugum í takt við breytta tíma. Það hefur tekist með því öfluga fólki sem þar starfar og því samskiptaneti sem það hefur byggt upp með samstarfi við önnur stjórnvöld og náinni samvinnu við utanríkisþjónustu annarra ríkja. Þannig hefur tekist að þétta öryggisnet það sem okkur er svo mikilvægt að reiða okkur á og í því samhengi höfum við enn fremur notið stuðnings ræðismanna um víða veröld.

Kjörræðismenn Íslands eru nú um 243 talsins og starfa í 89 löndum og vinna óeigingjarnt hugsjónastarf í þágu lands og þjóðar og það í sjálfboðavinnu. Þetta er ómetanlegt starf og stór hluti af því hvers vegna við getum yfir höfuð haldið úti jafn öflugri þjónustu og fyrir það ber að þakka, virðulegi forseti.

Viðlíka net og við höfum byggt upp í kringum borgaraþjónustuna er okkur mikilvægt á öðrum sviðum og ekki síst vegna viðskipta þar sem við erum mjög háð innflutningi og útflutningi, þ.e. við byggjum afkomu okkar og lífskjör mjög á utanríkisviðskiptum. Viðlíka skipulag á vettvangi viðskipta og í þessu samhengi borgaraþjónustunnar á sér stað í stuðningi við íslenskt atvinnulíf og íslensk fyrirtæki, m.a. í samstarfi við Íslandsstofu, viðskiptafulltrúa í sendiráðum Íslands og Viðskiptaráð Íslands.

Í skýrslunni kemur fram að í dag hafa íslensk fyrirtæki aðgang að viðamiklu neti fríverslunarsamninga sem tekur til alls 69 landa í gegnum EFTA-sáttmálann, EES-samninginn og þá 25 fríverslunarsamninga sem EFTA-ríkin hafa gert. Þá eru tvíhliða fríverslunarsamningar Íslands við Færeyjar, Grænland og Kína. Ríkisstjórnin hefur lagt mikla áherslu á að efla hagsmunagæslu og framkvæmd EES-samningsins og áherslu á EFTA í uppbyggingu fríverslunarnets, en jafnframt verið opin fyrir gerð tvíhliða fríverslunarsamninga þar sem ekki eru forsendur fyrir því að EFTA-ríkin standi sameiginlega að slíkum samningum.

Þá er afar mikilvægt að fylgjast með efnahagsþróun ólíkra markaða og efnahagssvæða og styrkja og efla tengsl við þá markaði. Í því samhengi er Evrópa langstærsti markaður Íslands með um 72% af heildarútflutningi ársins 2014 og við getum borið Bandaríkin saman í því tilliti með 4,9%, enn minna til Kanada. Ég nefni þau svæði vegna þess að þetta eru þau efnahagssvæði sem lítur út fyrir að séu að styrkjast nú um stundir og á komandi missirum.

Nú eiga sér stað fríverslunarviðræður á milli Bandaríkjanna og Evrópusambandsins. Eðli málsins samkvæmt skiptir það okkur og EFTA-ríkin öll miklu máli að fylgjast vel með framgangi þeirra viðræðna og fara vel yfir möguleg efnahagsleg áhrif þess samnings. Þar þarf meðal annars að hafa í huga að í dag eru tollar ekki hindrun í útflutningi íslenskra afurða til Bandaríkjanna. Því má spyrja hvort aukinn styrkur fyrirtækja í Evrópusambandinu veiki stöðu okkar gagnvart Bandaríkjunum. Þetta er stórt efnahagslegt mál og hagsmunamál á mörgum öðrum sviðum, því að við erum að tala um risastóran samning og einn þann stærsta sem hefur verið gerður á þessu sviði ef af verður. Þess vegna er mikilvægt fyrir íslensk stjórnvöld og EFTA-ríkin öll að greina og meta þá hagsmuni sem eru í húfi. Í því tilefni hafa stjórnvöld skipað samráðshóp sem hefur skilað fyrstu áfangaskýrslu þar að lútandi. Eins og ég sagði er um að ræða einn stærsta viðskipta- og fjárfestingarsamning sem gerður hefur verið. Því verða áhrif hans mikil. Það eru miklir viðskiptahagsmunir í húfi. Samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja er undir og þá ekki síður afleiðingar og áhrif á EES-samninginn sem er okkur svo mikilvægur.

Virðulegi forseti. Að lokum vil ég ítreka þakkir til hæstv. utanríkisráðherra fyrir greinargóða skýrslu.