144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[18:01]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa góðu umræðu sem er búin að vera um skýrsluna. Ég tel að umræðan hafi verið að mestu leyti málefnaleg og mjög innihaldsrík og hér er búið að fara um víðan völl í skýrslunni og þau málefni sem hér eru til umræðu.

Hér hefur verið minnst á málefni hafsins. Ég ítreka það sem ég sagði að ég og umhverfisráðherra höfum þegar átt samtal um að setja af stað sérstaka vinnu varðandi málefni hafsins. Hér hefur líka verið talað um þróunarsamvinnu sem er mjög mikilvægur hluti af utanríkisstefnunni og utanríkisþjónustunni og þeim verkefnum sem við erum að fást við. Það er markmið okkar allra held ég að reyna að bæta í þá fjármuni sem við höfum til verkefna á sviði þróunarsamvinnu. Við þekkjum það að 2009 var upphæðin rúmir 4 milljarðar, 2011 3 milljarðar og við erum á uppleið þótt við höfum ekki enn þá hækkað prósentutöluna.

Hv. alþingismaður Ögmundur Jónasson talaði um mannréttindi og færði ágætisrök fyrir því hvernig menn nálgast vandamál heimsins, hvort þeir nálgast þau út frá ógninni eða út frá vörninni, ef má orða það þannig. Hann talaði um að menn væru gjarnan að færa sig nær ógninni í staðinn fyrir að halda sig frá henni. Ég hlusta eftir því, en ég held hins vegar að það sem við höfum gert fram að þessu sé í sjálfu sér rétt stefna. Engu að síður er mikilvægt að hafa í huga orð eins og hv. þingmaður lét falla um hvort við eigum alltaf að blanda okkur inn í öll mál sem sjást á radarnum.

Hv. þingmaður ræddi líka um TiSA-viðræðurnar. Þær eru viðskiptalegs eðlis að sjálfsögðu, en þær miða að því eins og fyrir land eins og Ísland að gera landið enn þá samkeppnishæfara en áður í þeim stóra heimi sem við vinnum í og þjónustuviðskipti eru gríðarlega mikilvæg fyrir Íslendinga. Ef við nefnum bara flug sem dæmi eða ferðaþjónustu þá skiptir það máli. Ég ætla ekki að gera lítið úr orðum hv. þingmanns. Það eru vissulega einhverjir pyttir og hættur í þessu öllu sem við munum reyna að forðast og leggja áherslu á að fylgjast með. Varðandi almannaþjónustu, eins og heilbrigðisþjónustu sem hv. þingmaður nefndi, þá er rétt að þarna er ekki um að ræða neitt af grunnþjónustunni svokallaðri, en vissulega geta verið einhver verkefni sem tengjast þjónustu við heilbrigðisstofnanir í pakkanum. Ég vil líka koma því á framfæri að mér finnst áhugavert að skoða það hvort við getum mögulega boðið þeim ríkjum sem ekki taka þátt í þessum viðræðum eins og hinum smærri þegnum heimsins, ef má orða það þannig, sem eiga erfitt, við getum talað bara um þróunarlönd eða önnur lönd, að Ísland getur að sjálfsögðu ákveðið eða skoðað hvort bjóða eigi þeim viðlíka kjör og koma út úr þessum viðræðum. Það finnst mér mjög áhugavert að skoða.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson fór yfir ýmis mál. Hann spurði einnar beinnar spurningar, hvað ráðherrann ætlaði að gera varðandi viðbrögð Evrópusambandsins, væntanlega við því bréfi sem það fékk í hendur. Ég ætlast til þess að sjálfsögðu að Evrópusambandið virði það sem kemur fram í bréfinu. Evrópusambandið hefur mjög oft sagt að það virði vilja íslenskra stjórnvalda. Ef það dregst eitthvað þá mun ég að sjálfsögðu ganga eftir því að það geri það.

Mig langar líka að nefna orð hv. þm. Óttars Proppés þar sem hann fór yfir mikilvægi þess að vera með öfluga utanríkisþjónustu og vinna jákvætt að málunum og reyna að stuðla að samvinnu og samstarfi. Þetta var mjög góð ræða hjá hv. þingmanni og tek ég undir hana. Mér þykir líka að sjálfsögðu vænt um þau góðu orð sem hann lét falla um utanríkisþjónustuna og starfsfólk hennar sem og fleiri þingmenn hafa gert hér.

Það er töluvert rætt um EES-samninginn og meiningar um að hann sé munaðarlaus með einhverjum hætti. Ég er ekki sammála því en það hefur margoft komið hér fram að við þurfum vissulega að gera betur hvað varðar þann samning.

Hv. þm. Birgitta Jónsdóttir hélt hér ágæta ræðu, kom með nýyrði að ég held, hún talaði um kjötheima, það væru annars vegar netheimar og svo kjötheimar, ég man ekki eftir að hafa heyrt þetta áður. Þetta er hins vegar mjög áhugavert heiti yfir mannheima væntanlega og það sem gerist í þeim. Hún talaði um mannúðarstörfin og neyðaraðstoðina, nefndi sérstaklega Sýrland. Þar höfum við látið til okkar taka sérstaklega með neyðar- og mannúðaraðstoð í gegnum stofnanir Sameinuðu þjóðanna, veitt til þess í það minnsta 70 millj. kr. Við höfum einnig tekið á móti flóttamönnum frá Sýrlandi, en eflaust er óhætt að ræða þetta og mögulega gera betur.

Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson fór yfir netöryggi. Netöryggi er þáttur sem við verðum að taka alvarlega og er sérstaklega fjallað um hann m.a. í drögum um þjóðaröryggisstefnu sem kemur vonandi fyrr en seinna til kasta þingsins.

Hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir spurði um EES-samninginn, hvort ráðherrann vildi halda í EES-samninginn. Ég held að EES-samningurinn sé það besta sem við höfum í dag í viðskiptasamstarfi okkar við Evrópusambandið og Evrópuríki. Menn þekkja hins vegar þau orð sem ég hef áður látið falla um samninginn. Hann er 20 ára gamall og eðlilegt að farið sé yfir hvort virkni hans sé sem skyldi.

Þetta eru þær helstu spurningar sem hefur verið beint til mín í umræðunni. Ég ítreka að mér finnst umræðan hafa verið málefnaleg og góð. Ég vil í lokin þakka þingmönnum fyrir þátttökuna í umræðunni. Ég vil að sjálfsögðu þakka því góða starfsfólki utanríkisráðuneytisins sem samdi þessa skýrslu og er á vaktinni og verðinum víða um heim fyrir okkur og svarar símum, eins og í borgaraþjónustunni, allan sólarhringinn. Ég vil þakka því góða fólki fyrir þeirra störf og fyrir skýrsluna.