144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[18:08]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Eins og hæstv. ráðherra veit þá gef ég ekki mikið fyrir skoðanir hans um framhald á samstarfi Íslands og Evrópusambandsins. Það er pólitísk skoðun. Hæstv. ráðherra hefur fyllsta leyfi til þess að hafa hverja þá skoðun sem hann vill, en svo hefur hann stefnu. Hann hefur Evrópustefnu sem hann kynnti á sínum tíma. Það kom fram allt frá fyrsta andsvari hæstv. ráðherra við hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur fyrr í dag að sú stefna, og mér finnst það vægilega til orða tekið að segja, hún er ekki framkvæmd. Ég mundi segja að hún væri í henglum.

Í Evrópustefnunni eru rakin ákveðin tæki sem hæstv. ráðherra hyggst beita til þess að nýta betur tækifærin sem hann telur gefast innan EES. Ég er í grundvallaratriðum sammála því að það er alveg mögulegt að nýta samninginn betur, en það kemur í ljós að Evrópustefnan er ekki uppfyllt. Það átti til dæmis að ljúka sérstakri skýrslu á 20 ára afmæli samningsins í fyrra. Hún er ekki komin enn, ekki svo ég viti til. Það átti sömuleiðis að afla fjár til þess að geta rækt samninginn betur á fyrri stigum. Hér hafa menn margoft rætt þetta, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sérstaklega í dag. Af því tilefni, af því ég er orðinn þreyttur á að þrefa um þetta hér, þá tel ég og hef lagt fram þá skoðun mína að við í utanríkismálanefnd eigum að fara yfir þetta og skoða. Það er okkar að veita hæstv. ráðherra eftir atvikum aðhald eða liðsinni.

Spurningin sem ég ætla í lok þessarar umræðu að velta upp við hæstv. ráðherra og kom inn á í ræðu minni er tvíþætt, varðar fríverslun. Hvað er að gerast varðandi fríverslun eða viðræður eða könnun á möguleika á fríverslun við annars vegar Grænland og hins vegar við Japan?