144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[18:10]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og þingmenn hafa eflaust tekið eftir þá ákvað ég að eyða ekki mörgum orðum á fyrri ræðu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar í dag. Ég ákvað hins vegar að svara þeirri spurningu sem hann beindi til mín.

Aðeins um Evrópustefnuna og EES-samninginn. Það er rétt að koma því að að EES-samningurinn er að sjálfsögðu á forræði utanríkisráðuneytisins. EES-samningurinn er mikilvægur fyrir Ísland og ég er alveg klár á því og sammála hv. þingmanni í rauninni með að gengið hefur of hægt að koma ákveðnum hlutum í þessari ágætu stefnu okkar, Evrópustefnu, áfram. Ég treysti hins vegar á liðsinni þingmannsins við það m.a. að afla fjár í næstu fjárlögum varðandi þennan samning og það sem við þurfum að gera þar. Það er þó komið vel á rek matið á samningnum sem við ætluðum að gera. Það er rétt að við ætluðum að birta það fyrir áramót en það tefst eitthvað. Við erum komin af stað í samtal og samráð við hagsmunaaðila um samninginn, þannig að það er ýmislegt komið af stað, en vissulega erum við aðeins á eftir áætlun. Ég hugsa nú að þegar upp er staðið verði það ekki stóra málið.

Hv. þingmaður spyr um fríverslun við Grænland og Japan. Ég tók það upp í ferð minni til Japans og ræddi fríverslunarmöguleika við kollega minn þar og fleiri aðila. Það er alveg ljóst að Japanir hafa, ef þeir fara í viðræður, meiri áhuga á því að ræða við EFTA-ríkin öll saman heldur en einstök ríki um gerð slíkra samninga. Það sem við munum gera í framhaldinu og erum að sjálfsögðu að gera er að ýta á að fá slíkar viðræður eða plan um það.

Varðandi Grænland þá undirrituðum við fyrir einu og hálfu ári viljayfirlýsingu við Grænlendinga um skoðun á viðskiptamöguleikum og slíku. Við höldum því klárlega opnu (Forseti hringir.) en það hefur verið fram að þessu eilítið minni áhugi Grænlandsmegin (Forseti hringir.) á því að gera slíka samninga. Það eru þó nýlega búnar að vera (Forseti hringir.) viðræður um það mál og vonandi kemst einhver hreyfing á það úr þessu.