144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[18:13]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hirði lítt um það þótt hæstv ráðherra vilji ekki eyða orðum á ræðu mína enda óskaði ég ekkert eftir því, ég spurði bara fáeinna spurninga sem hann hefur nú svarað að nokkru leyti. Að öðru leyti var ræða mín nákvæmlega ræðan sem á að halda á miðju kjörtímabili. Þá er hlutverk stjórnarandstöðunnar að fara yfir og bera saman hver var stefnan sem lagt var með í upphafi og fara yfir hana. Það sem ég gerði var ekki annað en að hlífa hæstv. ráðherra við því að ræða meira um þennan síðasta leiðangur sem hann fór í til Brussel og allir vita hvernig hefur leikið hann og íslensku utanríkismál og ekki orð um það meir. En ég benti á að það voru fjögur málasvið sem hæstv. ráðherra sagðist ætla að leggja sérstaka áherslu á í sinni tíð. Ég útiloka ekki að þegar kjörtímabilinu lýkur eftir tvö ár rösk að öllu eðlilegu hafi hann komið einhverju af þeim málum í höfn. En það vill svo til að ég grandlas skýrsluna. Ég hlustaði á ræðu hæstv. ráðherra. Þannig að ég held að ég hafi haft full efni á því að halda hér hvassa ræðu þar sem ég sýndi fram á það með því að vísa í skýrsluna að nánast ekkert af þeim fjórum sviðum sem hæstv. ráðherra ætlaði að gera að aðaláherslusviðum sínum hefur skilað einhverjum sérstökum árangri. Við þurfum ekkert að ræða hér um það hvernig framkvæmd EES-samningsins hefur verið. Við þurfum ekki annað en að hlusta á það sem fyrrverandi ráðuneytisstjóri í ráðuneytinu og æðsti Íslendingur hjá ESA hefur verið að segja síðustu daga. Það er ekki ég sem bý það til að peninga skorti og samningurinn sé munaðarlaus. Það er Sverrir Haukur Gunnlaugsson sem segir þetta. Þess vegna tel ég að eigi að fá hann til fundar við nefndina. Ég gæti svo sem haldið mína seinni ræðu til þess að fara aftur yfir það, en svo er að samvinnan við Bandaríkin hefur ekki aukist heldur versnað. EES-samningurinn er framkvæmdur verr en áður. Það hefur komið fram. Norðurslóðamálin, hvað hefur gerst þar? (Forseti hringir.) Það er búið að útvista þeim til annars ráðuneytis.