144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[18:23]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Ekki ætla ég að stæla um það við hæstv. ráðherra, ég ætla að gefa honum eitt ráð og svo ræður hann hvort hann fer eftir því. Utanríkisráðherra Íslands á ekkert að vera að hitta einhverja aðstoðarráðherra, það er bara svoleiðis. Hann á að tala við þá sem eru jafningjar hans og enga aðra og enga kontórista. Það er bara svoleiðis.

Það er alveg rétt að það blésu oft kaldir vindar millum okkar og Bandaríkjanna sem kannski kom ekki fram, m.a. út af Palestínu og auðvitað var það harðast, en líka út af hvalamálum. Allt í lagi, ég segi hæstv. ráðherra frá því að ég tjáði sendiherra Bandaríkjanna að ég nennti ekki að hitta hann á fleiri fundum ef það eina sem hann vildi ræða við mig væri hvalamálið. Ég taldi að náðst hefði ákveðið samkomulag um hvernig ætti að fara með það mál á fundi mínum og utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Hillary Clinton. Við vorum sammála um hvernig átti að fara með það. Þeir stóðu einfaldlega ekki við það. Það er þannig sem menn eiga að koma fram við stórveldi og líka þá sem búa úti í Brussel. Þess vegna segi ég, burt séð frá efni málsins, og ég sagði hér í dag að það er alveg sama þótt við séum á öndverðri skoðun um Evrópusambandið, hæstv. ráðherra á hvorki að láta Evrópusambandið né aðra komast upp með eitthvað sem hann sjálfur kallar hneisu öðruvísi en að stappa niður fæti.

Af því að hæstv. ráðherra taldi að ég hefði gleymt heitinu á öryggis- og leitarmiðstöð, hvað sem menn vilja kalla það og samstarf okkar við Bandaríkin um það, ég veit allt um það. Það hófst á fundi mínum og utanríkisráðherra Bandaríkjanna og svo bíð ég eftir því, kannski eftir ár, að hæstv. ráðherra geti sagt mér hversu langt það er komið, ef hann færi einhvern tímann að hitta einhvern mann af viti aðra en aðstoðarutanríkisráðherra og einhverja kontórista hjá þessu stórveldi.