144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[18:25]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ákveðinn munur sé núna að skýrast. Í fyrsta lagi er það þannig að ég er ekki það stór upp á mig að ég geti ekki hitt aðstoðarráðherra eða embættismenn eða þingmenn og rætt slík mál. Það kann að vera að það hafi verið stefnan fyrir nokkrum árum, í ráðherratíð hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, að tala ekki við menn nema þeir hefðu einhvern titil. Ég þekki það ekki.

Það er líka áhugavert að heyra að það eina sem hv. þingmaður og þáverandi ráðherra ræddi við Bandaríkjamenn voru hvalamálin og að hann hafi orðið leiður á því. Það eru ýmis önnur áhugaverð mál sem við erum að ræða við Bandaríkjamenn. Hvalamálin eru vissulega rædd vegna þess að þeim ber skylda til þess, m.a. samkvæmt Pelly-ákvæðinu. En samskiptin eru alveg til fyrirmyndar og ég hlakka mjög til að styrkja þau enn frekar. Ég held að við munum, og vonandi, sjá þess merki fyrir lok kjörtímabils.