144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[18:26]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað var það ekki fortakslaus regla en menn þurftu að vera mjög skemmtilegir til þess að það gerðist.

Ég óska hæstv. ráðherra heilla í því og vona að honum takist að bæta sambandið við Bandaríkin. Ein af ástæðum fyrir því að ég kom hérna til að ræða þetta var að hann taldi að sambandið hefði batnað svo mikið. Gott og vel. Ég er í utanríkismálanefnd. Ég hef áhyggjur af málinu. Ég er einn af fáum mönnum sem að minnsta kosti telja að það skipti mjög miklu máli fyrir okkur að hafa gott og náið samband við Bandaríkin á mörgum sviðum. Það eru ekki allir á mínum væng stjórnmálanna endilega á því. Ég sagði við einn hv. þingmann úr ræðustóli í dag að við værum sennilega síðustu móhíkanarnir, sem teldum að það skipti miklu máli. Þannig er það einfaldlega.

Ég vildi gjarnan sjá hæstv. ráðherra til dæmis vinna á þeim grunni sem búið var að byggja og fá almennilegan samning um norðurslóðasamvinnu millum okkar og Bandaríkjanna. Ég er viss um að hann kemur með það hér á næsta ári. En hæstv. ráðherra á ekki að koma hér í stól og berja sér á brjóst og tala um að hann hafi svo miklu betra samband við tilteknar ríkisstjórnir en forverar hans þegar staðreyndin er sú að hann fær ekki einu sinni fundi með þeim. Það fékk þó fyrri ríkisstjórn og var kannski á öðrum vallarhelmingi pólitíkurinnar en hæstv. ráðherra.