144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

Norræna ráðherranefndin 2014.

611. mál
[18:28]
Horfa

ráðherra norrænna samstarfsmála (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mun nú gera stuttlega grein fyrir skýrslu sem ég hef tekið saman um þátttöku okkar í samstarfi norrænu ríkisstjórnanna á árinu 2014 eins og það fer fram á vettvangi norrænu ráðherranefndarinnar.

Skýrslan var eins og mörg undanfarin ár unnin í góðu samstarfi og samráði við ráðuneytin og undirstofnanir þeirra þegar við átti. Að þessu sinni var áherslan lögð á að breyta uppsetningu skýrslunnar með það í huga að gera hana læsilegri og vonandi áhugaverðari.

Síðastliðið ár var sérstakt í norrænu samstarfi vegna þess að Ísland fór með formennsku í norrænu ráðherranefndinni. Formennskuhlutverkið er stórt í sniðum og ábyrgðarmikið. Því fylgir aukið álag sem bætist við dagleg störf allra þeirra starfsmanna Stjórnarráðsins sem sitja í norrænum embættismannanefndum og þeirra ráðherra ríkisstjórnarinnar sem setjast í forsæti fagráðherranefnda sinna. Ég vil þakka öllum þeim starfsmönnum sem komu að þessari miklu vinnu og ég held að okkur hafi tekist að leiða samstarfið með sóma. Við gátum sett mark okkar á það með því að koma að ýmsum áherslum sem við teljum brýnar, ekki bara fyrir okkur Íslendinga heldur fyrir alla Norðurlandabúa.

Kjölfestan í formennsku okkar samanstóð af formennskuverkefnunum NordBio/Biophilia, Norræna spilunarlistanum og Norrænu velferðarvaktinni. Enda þótt verkefnin teljist hluti af formennskuáætlun okkar eru þau í alla staði norræn og voru þau samþykkt sem slík af norrænu samstarfsráðherrunum og verða áfram hluti af áherslumálum norrænu ráðherranefndarinnar, a.m.k. næstu tvö árin. Mikil vinna var lögð í verkefnin á árinu en öll hafa þau staðist þær áætlanir sem lagt var upp með í upphafi formennskuársins.

Stærst þessara verkefna eru NordBio/Biophilia verkefnið en til þess var varið 10 millj. danskra kr. eða rúmlega 200 millj. ísl. kr. á árinu. Biophilia, sem er stórt verkefni innan vébanda NordBio er á ábyrgð norrænu menntamálaráðherranna. Þetta er kennslufræðitilraun sem byggir á samstarfi vísinda og lista og viðfangsefni NordBio hlutans eru afar fjölbreytt og má þar m.a. finna nýsköpun, umhverfismál, byggðaþróun, orkumál, landbúnað, skógrækt, fiskveiðar og matvælaframleiðslu.

Í upphafi var þannig ljóst að verkefnið mundi krefjast aðkomu margra samstarfssviða og fór fram mikil undirbúnings- og mótunarvinna vegna þessa. Hér á landi eru það einkum þrjú ráðuneyti sem bera ábyrgð á verkefninu. Það eru atvinnuvegaráðuneytið, menntamálaráðuneytið og umhverfisráðuneytið auk þess sem það fellur undir fimm ráðherranefndir innan norrænu ráðherranefndarinnar. Við höfum síðan til samstarfs öflugar norrænar stofnanir sem leggja sitt af mörkum til verkefnisins auk þess sem rannsókna- og nýsköpunarstofnanir í löndunum taka þátt. Segja má að við Íslendingar höfum brotið í blað í samstarfinu með þessu verkefni en það hefur aldrei fyrr gerst að stofnað hafi verið til norræns verkefnis sem krefst samvinnu svo margra ólíkra samstarfssviða. Verkefnið er til þriggja ára og eru allar líkur til þess að samanlagt 600 millj. ísl. kr. verði varið til þess.

Norræni spilunarlistinn er menningarverkefni sem er á ábyrgð norrænu menningarráðherranna. Markmið þess er að kynna norræna popptónlist bæði innan Norðurlanda og utan og í upphafi formennskuárs var verkefnið komið það vel á veg að hægt var að kynna það strax í upphafi janúar. Verkefnið nýtir netið til þess að koma norrænni tónlist á framfæri og er miðstöð þess á sérstakri heimasíðu þar sem kynningin fer fram. Öll helstu markmið verkefnisins náðust á árinu hvað varðar sýnileika á samfélagsmiðlum og heimsóknir á heimasíðu þess og vonast er til að hægt verði að beina sjónum að fleiri tónlistartegundum árin 2015 og 2016. Norrænt fé til verkefnisins voru 2 millj. danskar kr. eða um 40 millj. ísl. kr. og gert er ráð fyrir að sömu upphæðir verði til ráðstöfunar í ár og að öllu óbreyttu einnig á næsta ári.

Norræna velferðarvaktin byggir á íslensku velferðarvaktinni sem sett var á laggirnar hér á landi í kjölfar efnahagshrunsins 2008. Velferðarvaktin var á sínum tíma kynnt fyrir norrænum félagsmálaráðherrum og upp úr því vaknaði hugmyndin um að rannsaka áhrif fjármálaþrenginga og tengdra afleiðinga á norrænu velferðarkerfin til að stuðla að upplýstri stefnumótun um velferðarmál á Norðurlöndum. Norrænu félags- og heilbrigðisráðherrarnir bera ábyrgð á verkefninu en hér heima er það velferðarráðuneytið sem sér um sjálfa framkvæmdina og tryggir norrænu tengingarnar. Líkt og um önnur formennskuverkefni einkenndist árið af miklum undirbúningi og myndun norrænna tenginga. Verkefni gengu samkvæmt áætlun og vænta má fyrstu niðurstaðna síðar á árinu. Í gær var einmitt haldinn sérstakur kynningarfundur um verkefnið og er orðin mjög flott heimasíðan með upplýsingum um verkefnið. Alls runnu 3 millj. danskar kr., um 60 millj. ísl. kr. til verkefnisins. Sama upphæð hefur verið ákveðin í ár og gert er ráð fyrir að sú upphæð haldist 2016.

Eins og fram kemur í formála skýrslunnar er norrænt samstarf mjög yfirgripsmikið og ógjörningur að gera því öllu skil á einum stað. Til þess höfum við heimasíðu norrænu ráðherranefndarinnar og norrænu stofnananna og síðan höfum við náttúrlega reynt eins og við getum að koma á framfæri upplýsingum á okkar eigin vefsíðum hjá ráðuneytunum. Ég ætla hins vegar að stikla á stóru og nefna nokkra norræna viðburði sem haldnir voru hér á landi og kom í hlut okkar Íslendinga að skipuleggja og um málefni sem voru í deiglunni á árinu.

Það hefur löngum einkennt norræna ríkisstjórnasamstarfið að spurt er með reglulegu millibili hvað löndin vilja fá út úr því og hvort enn sé hagkvæmt að leita sameiginlegra lausna á ýmsum sviðum í stað þess að hvert land leysi sjálft sín mál. Í þeim anda hófst á formennskuári Svía umræða í hópi samstarfsráðherranna um hver skyldi vera stefna eða framtíðarsýn norræns samstarfs næstu árin. Þeirri umræðu lauk í byrjun formennskuárs okkar með því að samstarfsráðherrarnir komu sér saman um yfirlýsingu sem á að vera leiðarljósið í samstarfinu næstu árin.

Í stuttu máli vilja samstarfsráðherrarnir að samstarf í framtíðinni miði að því að Norðurlönd verði án landamæra, að efla þau sem nýskapandi svæði, að gera þau sýnileg með því að standa saman að því að vekja athygli umheimsins á Norðurlöndum sem einni heild og að þau stilli betur saman strengi sína í alþjóðamálum. Yfirlýsinguna í heild er hægt að finna á heimasíðu ráðherranefndarinnar og nánari upplýsingar um þetta er að finna á bls. 9 í skýrslunni.

Í samræmi við fyrrgreinda viljayfirlýsingu um nauðsyn þess að vekja athygli umheimsins á Norðurlöndum sem einni heild hófst á árinu vinna við að móta sameiginlega áætlun um að kynna og skapa Norðurlöndum stöðu á alþjóðavettvangi. Þessi vinna tók mið af niðurstöðum forkönnunar sem ráðherranefndin lét gera í kjölfar Nordic Cool menningarhátíðarinnar sem haldin var í Kennedy Center í febrúar 2013 og tókst gífurlega vel. Útvaldir aðilar í löndunum sem láta sig þessi mál varða voru spurðir hvort þörf væri á samnorrænni áætlun fyrir markaðssetningu Norðurlanda sem svæðis og hverju hún mundi skila. Niðurstöðurnar voru afgerandi á þá lund að slíkt væri mjög æskilegt og samlegðaráhrifin væru augljós.

Ákveðið var að ráðast í verkefnið snemma á árinu og var í því skyni skipaður norrænn sérfræðingahópur sem hafði veg og vanda af því að undirbúa áætlunina í samstarfi við upplýsingadeild ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn. Áætlun um að kynna og skapa Norðurlöndum stöðu á alþjóðavettvangi 2015–2018 var síðan lögð fyrir fund samstarfsráðherra í lok október þar sem hún var samþykkt. Áætlunin kemur til framkvæmda frá áramótum 2015 og hefur nú verið ráðinn verkefnisstjóri til fjögurra ára til þess að hafa umsjón með framkvæmd hennar. Gert er ráð fyrir að allir sem hyggja á sameiginlega norræna kynningu og markaðssetningu geti þannig nýtt sér áætlunina.

Starf ráðherranefndarinnar við að ryðja úr vegi stjórnsýsluhindrunum tók breytingum með því að landamærahindranaráðið tók til starfa 1. janúar. Nýmæli er að löndin munu nú skiptast á að leiða starfið samkvæmt formennsku í norrænu ráðherranefndinni. Það kom því í okkar hlut að vera í forsæti þetta fyrsta starfsár sem einkenndist af mikilli vinnu við að skipuleggja störf ráðsins þannig að þau gætu skilað árangri. Það er ljóst að ein aðalforsendan fyrir lausn stjórnsýsluhindrana er áhugi, vilji og geta þingmanna, ráðherra og embættismanna til að breyta löggjöf eða breyta framkvæmd reglna eftir því sem við á í hverri hindrun fyrir sig. Ég vil nota tækifærið og þakka sérstaklega Siv Friðleifsdóttur fyrir hennar miklu vinnu á síðasta ári sem fyrsti formaður landamærahindranaráðsins.

Á árinu var þess minnst að 60 ár eru liðin frá því að Norðurlönd undirrituðu samninginn um sameiginlegan vinnumarkað. Efnt var til ráðstefnu í Hörpu þar sem fjallað var um norræna vinnumarkaðinn frá ýmsum hliðum. Við sama tækifæri voru kynntar helstu niðurstöður viðamikillar rannsóknar á norræna velferðarkerfinu og þeim áskorunum sem það stendur andspænis á næstu áratugum, þ.e. stafrænu byltingunni sem hefur í för með sér fækkun starfa, æ meiri hnattvæðingu, sem leiðir meðal annars til flutnings fyrirtækja og atvinnutækifæra til svæða þar sem skattumhverfið er hagstæðara, og loks hækkandi meðalaldur Norðurlandabúa og þar með ört stækkandi hóp aldraðra sem þurfa að reiða sig á velferðarkerfið og þjónustu þess.

Fleiri tímamót í norrænu samstarfi bar upp á formennskuár Íslands. Haldin var ráðstefna í tilefni af 40 ára jafnréttissamstarfi og Svanurinn, norræna umhverfismerkið, fagnaði 25 ára samstarfsafmæli. Á árinu var lögð mikil vinna í að endurskoða og betrumbæta allt innra starf norrænu ráðherranefndarinnar til að einfalda daglega starfsemi og gera hana skilvirkari. Forstjóri skrifstofunnar í Kaupmannahöfn lagði fyrir okkur samstarfsráðherrana tillögur sínar til úrbóta á sumarfundi okkar og voru þær flestar samþykktar. Ég vil sérstaklega nefna bættar starfsaðferðir og meira gegnsæi varðandi undirbúning norrænu fjárlaganna, skýrari framsetningu þeirra í fjárlagabókinni og betra eftirlit með rekstri norrænna verkefna svo og aukna kröfu um árangursstjórnun. Allt eru þetta atriði sem Norðurlandaráð hefur óskað eftir undanfarin ár að verði færð til betri vegar.

Ég vil hins vegar taka fram að ég lagði sérstaka áherslu á að skerpt væri á sjálfstæði hverrar ráðherranefndar þegar kemur að fjármálum og menn mundu þá horfa meira til reynslunnar af menntamálaráðherrunum sem hafa haft mjög mikið sjálfstæði varðandi það hvernig þeir ráðstafa fjármunum sínum, það væri eitthvað sem hver og ein ráðherranefnd ætti að huga að og við ættum að vinna að.

Málefni norrænu skrifstofunnar í Pétursborg var því miður mikið í kastljósinu á árinu, en þegar á árinu 2012 urðu menn uggandi um að viðvera norrænu ráðherranefndarinnar í Rússlandi mundi eiga á brattann að sækja á næstkomandi missirum vegna hertrar löggjafar þar í landi um starfsemi frjálsra félagasamtaka. Skrifstofur ráðherranefndarinnar í Kalíníngrad og í Pétursborg eru skilgreindar sem frjáls félagasamtök samkvæmt rússneskum lögum þrátt fyrir andmæli ráðherranefndarinnar, en á vormánuðum 2013 fékk skrifstofan í Kalíníngrad eftirlitsheimsókn saksóknaraembættisins og til tíðinda dró enn á ný á miðju sumri 2014 þegar saksóknaraembættið í Pétursborg mætti í fyrirvaralausa heimsókn á skrifstofu ráðherranefndarinnar og krafðist þess að fá aðgang að tölvum og gögnum þar sem starfsemin væri nú komin undir smásjá yfirvalda. Í kjölfarið fyrirskipaði saksóknari í janúar 2015 að skrifstofan skyldi skráð sem erlendur erindreki, á ensku „foreign agent“, og var hún sett á nokkurs konar svartan lista sem birtist á heimasíðu rússneska dómsmálaráðuneytisins yfir fleiri félagasamtök í Rússlandi sem munu eftirleiðis sæta sérstöku eftirliti stjórnvalda.

Þessi nýja staða gerir skrifstofunni mjög erfitt fyrir að sinna verkefnum sínum. Starfsemin er nú í algjörri biðstöðu. Öllum verkefnum hefur verið frestað og heimasíðu skrifstofunnar hefur verið lokað. Norðurlöndin telja þetta mjög miður enda hafði norræna ráðherranefndin átt gott samstarf við rússnesk yfirvöld og stofnanir síðan skrifstofurnar voru settar á laggirnar fyrir um 20 árum. Sendiherrar Norðurlandanna í Moskvu hafa á fundum í rússneska utanríkisráðuneytinu komið á framfæri þungum áhyggjum af eftirlitsheimsóknunum og þeirri ákvörðun stjórnvalda að breyta stöðu skrifstofunnar í Pétursborg, og var við sama tækifæri hvatt til þess að Rússar endurskoðuðu afstöðu sína. Viðmót utanríkisráðuneytisins hefur fram til þessa verið þannig að lítil von er til þess að svo geti orðið í nánustu framtíð. Staða skrifstofunnar í Pétursborg og allt rekstrarumhverfi er þannig afar erfitt og er nú rætt í hópi samstarfsráðherranna og í nánu samráði við norrænu utanríkisráðuneytin hvert skuli stefna í málefnum hennar. Það er því ljóst að miklar breytingar munu eiga sér stað varðandi viðveru ráðherranefndarinnar í Rússlandi á næstu missirum.

Virðulegi forseti. Ég hef stiklað á stóru yfir nokkur valin efnisatriði skýrslunnar. Margt varð að sjálfsögðu út undan enda naumur tími. Ég vona hins vegar að þingmenn vilji ræða efni skýrslunnar og líka þeirra eigið samstarf á þessum vettvangi og þýðingu þess fyrir okkur Íslendinga og við munum þannig hafa tækifæri til að ræða ýmis norræn málefni sem enn hefur ekki verið hreyft við í þessari umræðu. En ég vil ljúka máli mínu með því að þakka annars vegar starfsmönnum Norðurlandaskrifstofunnar fyrir frábært samstarf á árinu. Þetta hefði aldrei nokkurn tíma getað gengið jafn vel nema vegna þessarar miklu, faglegu og góðu vinnu frá þeirra hendi.

Ég vil líka fá að nota tækifærið og þakka forvera mínum í starfi sem samstarfsráðherra, hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur. Við sjáum alveg á þeim verkefnum sem ég var að fara hér í gegnum áhrif hennar og hugmyndagnótt þegar kom að þessari nálgun. Ég held að hið sama gildi líka um aðra ráðherra sem komu að undirbúningi þessara verkefna. Og það er það sem ég held að sé svo gott við Norðurlandasamstarfið að við sjáum þessa samfellu sem er á milli landa óháð stjórnmálaflokkum, að okkur er öllum mjög annt um þetta samstarf og teljum að það skipti okkur mjög miklu máli.