144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

Norræna ráðherranefndin 2014.

611. mál
[18:43]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir afar áhugaverða skýrslu og fína yfirferð yfir hana. Mig langar í þessu andsvari mínu að spyrja hæstv. ráðherra aðeins nánar út í einn þátt, sem snýr að landamærahindrunum eða því markvissa starfi sem á sér stað til að hrinda úr vegi stjórnsýsluhindrunum. Það kemur fram í skýrslunni að norrænn vinnuhópur um almannatryggingar hafi fylgst með framkvæmd Norðurlandasamnings um almannatryggingar og það hafi leitt til þess að tekist hafi að leysa úr mörgum stjórnsýsluhindrunum á árinu.

Mig langar að spyrja út í það sem í daglegu tali er kallað búsetuskerðingar en raunin er sú að þó nokkuð margir Íslendingar eru í þeirri stöðu að fá skertar greiðslur úr íslenska almannatryggingakerfinu út af fyrri búsetu erlendis, meðal annars á Norðurlöndunum. Það er um þá sem hafa búið á Norðurlöndunum sem ég er að spyrja í þessu samhengi, ekki um þá sem hafa búið annars staðar, en fá ekki greiðslur úr almannatryggingakerfum fyrri búsetulanda. Ég giska á að þessu sé líka öfugt farið að einhverjir hafi búið hér en svo flutt aftur til baka.

Mig langar að inna ráðherrann eftir því hvort og þá hvernig norræna ráðherranefndin sé að vinna að úrlausn fyrir þessa einstaklinga. Er eitthvert starf í gangi til að samræma reglur, ég veit ekki hvort ég get orðað það þannig, en alla vega koma af stað einhverri samræmingu þannig að fólk detti ekki á milli kerfa þegar kemur að almannatryggingum vegna búsetu annars staðar á Norðurlöndum?