144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

Norræna ráðherranefndin 2014.

611. mál
[19:04]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað að blanda mér í þessa umræðu heldur hlýða einungis á mína fróðu félaga, en ég vil þó segja að ég trúi staðfastlega á gildi norræns samstarfs og tel að Íslendingar hafi mjög mikinn hag og ávinning af því. Fann það glögglega sem utanríkisráðherra hvað það gaf Íslandi miklu meira vægi að vera í hópi með Norðurlöndunum. Það er nú einu sinni þannig að heita má að ekki skipti máli hvers konar ríkisstjórnir sitja á hinum ýmsu Norðurlöndum, viðhorf þeirra á svo mörgum sviðum og sem virðast svo smogin inn í samfélögin eru svo ótrúlega lík að við gátum alltaf átt samleið og það styrkti hvert og eitt okkar.

Ég kem hingað aðallega upp til að játa gamlar bernskusyndir, sem þó hafa á seinni árum tekið sig upp. Hv. þingmaður veit að ég er þess heldur fýsandi að Ísland sé í bandalögum. En ég get sagt honum það að þó að ég sé eindreginn Evrópusinni sé ég í reynd ekki neinar sérstakar óleysanlegar þverstæður í því að aðhyllast gamla skandínavismann, sérstaklega eins hann var skýrður af ýmsum þeim sem mest um hann skrifuðu fyrir 1930 eða 1940, og hins vegar þess að vera Evrópusambandssinni, eins og ég er í dag. Ég vildi bara segja það af því að ég sá hvað það kom sterkur glampi og leiftrandi í augu hv. þingmanns þegar hann talaði um einhvers konar, ja, ég vil nú ekki orða það þannig, stórríki Norðurlandanna. En ég tel að sú hugsjón um að festa samstarf Norðurlandanna enn betur sé nokkuð sem sjálfsagt sé að skoða til framtíðar. Og viðurkenning mín og játning felst í því að ég hef alltaf verið dálítið hallur undir þetta og las það fyrst úr ritum Gunnars Gunnarssonar.