144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

Norræna ráðherranefndin 2014.

611. mál
[19:10]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla alls ekki að gera hv. þingmanni upp neinar skoðanir og það er alveg rétt, það er kannski ekki nægjanlega virðulegt tal að tengja það á nokkurn hátt við trúarbrögð, praktísk viðfangsefni eða úrlausnarefni eins og það er að finna út úr því hvort það sé hagstætt hagsmunum Íslands að vera í Evrópusambandinu eða ekki. Ég er ekki að gera því skóna að hv. þingmaður nálgist það á neinn annan hátt en sem slíkt, efnislegt, praktískt úrlausnarefni.

Hvað varðar Norðurlöndin saman sem eina heild þá eru þau það sem betur fer á ýmsan hátt. Af því að við vorum hér fyrr að ræða aðeins um sameiginlega kynningu á Norðurlöndunum út á við verður maður auðvitað var við það annars staðar á alþjóðavettvangi að menn líta oft á Norðurlöndin sem nánast eina heild og tala um norræna módelið og norrænu velferðarsamfélögin, gera sér ekkert endilega grein fyrir því að þau samanstandi af fimm sjálfstæðum löndum og þremur sjálfstjórnarsvæðum. En það má betur gera og ég held að gott sé að hafa þá hugsun með sér í farteskinu að halda þessu opnu, því hver veit hvernig heimurinn á eftir að skakast til á næstu árum og kannski næstu tveim, þrem áratugum. Við vitum hvað við höfum í góðu norrænu samstarfi en við vitum ekki hið óorðna, hvernig alþjóðastjórnmál og heimsmál þróast á næstu árum. Ég er tilbúinn til að helga krafta mína svo lengi sem þeir endast því, að að þessu verði unnið, þessu verði sinnt og einhvers konar bandalag, efnahagsleg samvinna, miklu dýpri og sterkari, það gæti verið freistandi fyrir Ísland í ýmsu samhengi, svo að ég nefni nú ekki gjaldmiðil, heldur bara eitthvað annað.

Svo hef ég alltaf átt mér eina draumsýn í sambandi við þetta, svona meira í tengslum við norrænan samruna, ef ekki bara norrænt ríkjasamband, að tekin verði upp sameiginleg utanríkis- og öryggismálastefna og að hlutleysisstefna Svía og Finna yrði ofan á.