144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

Norræna ráðherranefndin 2014.

611. mál
[19:44]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vildi aðeins bregðast við varðandi pólitíkina. Það er alveg rétt, ég nefndi pólitísk mál í sambandi við Norðurlandasamstarfið og það hvert við stefnum. Það er nákvæmlega það sem er að gerast í Norðurlandaráði svo að ég held að menn hafi talið það vera styrk að taka til dæmis utanaríkismál til umræðu. Það er líka verið að tala um það í sambandi við endurskoðunarnefndina þar, að reyna að fá fleiri tillögur frá flokkahópunum.

Þar sem verður að vera sérkenni norræna samstarfsins er að við kunnum að leiða mál til niðurstöðu, sem veitti ekki af að læra á þessu þingi. Það er líka eitt af sérkennunum að menn geta verið að reka minnihlutastjórnir til dæmis á Norðurlöndunum og komist að samstöðu, fundið leiðir. Það verður alltaf að bera virðingu fyrir minni hlutanum vegna þess að heimurinn er ekki svo einfaldur að ef menn ná 51% meiri hluta geti þeir farið um eins og hann sé einráður.

Þetta er ekki sagt til að draga úr vægi norræns samstarfs, þvert á móti. Ég held að þetta sé mikilvægt ef maður hefur það í huga að við getum fundið lausnir. Þess vegna segi ég varðandi bæði heilbrigðis- og menntamálin: Ekki fara út í að útvista því þannig eða missa það yfir í það sem hætta er á, að við fáum tvöfalt kerfi. Það er andstaðan við norræna módelið. Ég held að hæstv. ráðherra sé sammála mér að við viljum ekki bandarískt kerfi í heilbrigðismálum.

Þess vegna voru aðvörunarorð mín til hæstv. ráðherra út frá skýrslunni um Norðurlöndin: Vöndum okkur þannig að við missum ekki þau sérkenni sem við viljum halda í. Það þýðir ekki að við ætlum að gera öll Norðurlöndin eins. En við erum með mannréttindi, jafnrétti, við erum með lýðræðislegu vinklana. Við erum með þessa kunnáttu eða þurfum að vera með hana til að leiða mál til lykta.