144. löggjafarþing — 83. fundur,  23. mars 2015.

breytingar á lögum um Seðlabankann.

[15:06]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Undirbúningurinn hefur, eins og ég nefndi áðan, staðið um alllangt skeið svoleiðis að ég á von á því að þegar menn skila af sér verði það mjög vel undirbúin niðurstaða og ekkert að vanbúnaði að taka afstöðu til hennar.

Hvað varðar hins vegar fabúleringar hv. þingmanns um að það sé á einhvern hátt því að kenna að við höfum haft þrjá seðlabankastjóra að hér hafi efnahagsmálin þróast með þeim hætti sem þau gerðu fyrir nokkrum árum er það ákaflega sérkennilegt enda er það oftar en ekki tilfellið að fleiri en einn seðlabankastjóri eru við stjórnvölinn í seðlabönkum landanna í kringum okkur, oft og tíðum margir seðlabankastjórar.

Hér voru lengi vel þrír seðlabankastjórar. Það voru ekki helmingaskipti í því eða er hv. þingmaður að gera lítið úr öllum þeim ágætu krötum sem gegndu starfi seðlabankastjóra ef hann lítur einkum og sér í lagi á þær pólitísku skoðanir sem menn kunna að hafa haft áður en þeir tóku til starfa í bankanum?