144. löggjafarþing — 83. fundur,  23. mars 2015.

Hagavatnsvirkjun.

[15:07]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegi forseti. Í lögum um rammaáætlun er gert ráð fyrir að sérstakir faghópar fari yfir virkjunarhugmyndir og skili inn sérstakri einkunnagjöf til verkefnisstjórnar sem svo raðar niður hugmyndum um virkjunarkosti. Í breytingartillögum frá meiri hluta atvinnuveganefndar sem nú liggja fyrir í þinginu er gert ráð fyrir að einn virkjunarkostur að minnsta kosti, það er álitamál varðandi Skrokköldu, sem hefur ekki hlotið faglega skoðun og ekki hlotið umfjöllun verkefnisstjórnar, sem sagt ekki verið raðað niður af verkefnisstjórn í vernd, bið eða nýtingu, sé færður af hálfu nefndarinnar í nýtingarflokk. Nú þykist ég vita eftir að hafa setið hér á þingi með hæstv. ráðherra Ragnheiði Elínu Árnadóttur að henni renni frekar blóðið til skyldunnar í að reyna að virkja sem mest og ég tel ágætislíkur á því að hæstv. ráðherra sé þeirrar skoðunar að virkja eigi í Hagavatni og hún er alveg góðra gjalda verð, sú skoðun hæstv. ráðherra, þó að ég sé ekki sammála henni. Hins vegar vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé nóg út af fyrir sig, að það sé skoðun meiri hluta nefndarinnar að þarna eigi að virkja til þess að Alþingi taki þá ákvörðun að færa virkjunarkostinn úr biðflokki yfir í nýtingu.

Ég held að það sé svolítið mikilvægt að hæstv. ráðherra lýsi því hér yfir hvaða skoðun hún hafi á þessari framkvæmd og hvort hún telji nóg að skoðun stjórnmálamanna liggi fyrir en ekki tilskilin fagleg aðkoma faghópa og verkefnisstjórnar.