144. löggjafarþing — 83. fundur,  23. mars 2015.

Hagavatnsvirkjun.

[15:10]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Umræddur virkjunarkostur, Hagavatn, var ræddur ítarlega á seinasta kjörtímabili hér í þinginu þegar við ræddum rammaáætlun og það má eiginlega halda því fram að ástæða þess að hann var ekki tekinn til efnislegrar meðferðar og færður á milli flokka hafi verið mistök. Ég hef heyrt því fleygt af hálfu fulltrúa þeirra sem voru í þessu á síðasta kjörtímabili.

Við skulum rifja það upp að um þennan umrædda virkjunarkost hafa komið fram mjög jákvæðar umsagnir, ekki síst í umhverfislegu tilliti. Í ljósi þess sem fram hefur komið, m.a. í ræðum og riti frá hæstv. forseta, að þingið og þingmenn hafa mjög rúmar heimildir til að leggja breytingartillögur fram þá sé ég ekkert athugavert við það að atvinnuveganefnd þingsins geri það og kalli til og fari yfir þau gögn sem um þennan einstaka virkjunarkost ræðir þannig að ég geri ekki athugasemd við þá afgreiðslu atvinnuveganefndar.