144. löggjafarþing — 83. fundur,  23. mars 2015.

Hagavatnsvirkjun.

[15:11]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegi forseti. Noh, það liggur þá fyrir hér að hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra ber ekki virðingu fyrir þeim lögum sem sett hafa verið um röðun virkjunarkosta. Hún ber ekki virðingu fyrir lögum um rammaáætlun og er sama þó að ekki sé farið að þeim lögum þegar raðað er niður virkjunarkostum vegna þess að hún hefur heyrt því fleygt, eins og hún orðaði það svo smekklega í ræðustól, að ýmis álitamál hafi verið uppi um þennan kost á síðasta kjörtímabili. Þetta eru auðvitað hraksmánarleg svör sem hæstv. ráðherra kemur með í þessu máli.

Þar fyrir utan hefur helsti sérfræðingur okkar í jarðvegseyðingu, Ólafur Arnalds prófessor, sagt að það skorti að minnsta kosti sex ef ekki sjö ólíkar rannsóknir á afleiðingum þess að stífla við Hagavatn. Þetta er virt að vettugi vegna þess að hæstv. ráðherra hefur heyrt einhverju öðru fleygt.