144. löggjafarþing — 83. fundur,  23. mars 2015.

frumvarp um sölu áfengis í matvöruverslunum.

[15:14]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að ræða við hæstv. heilbrigðisráðherra um frumvarp sem lagt hefur verið fram og snýr að því að sala áfengis fari frá ríkinu inn á almennan markað. Mig langar að velta upp nokkrum spurningum með ráðherranum þar sem víða hefur komið fram í umsögnum um málið að flest bendi til þess að fjölgun útsölustaða og aukið aðgengi muni valda aukinni áfengisneyslu með auknu álagi á heilbrigiskerfið, barnaverndarkerfið, félagskerfið, dómskerfið og tryggingakerfið og áhrifa muni gæta mjög víða í samfélaginu.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnun hefur líka bent á að áfengisneysla er þriðji stærsti áhættuvaldur fyrir heilsu mannkyns og sama stofnun hefur sagt að rekja megi aukna tíðni ákveðinna sjúkdóma til áfengisneyslu en tekur jafnframt fram að heilsufarsleg áhrif áfengis séu einnig víðtæk þegar litið er til andlegra og líkamlegra afleiðinga ofbeldis og slysa af völdum áfengisneyslu.

Sænska lýðheilsustofnunin fól sænskum og alþjóðlegum sérfræðingum í áfengisrannsóknum að gera rannsókn á áhrifum þess fyrir sænskt samfélag ef ríkiseinokun á áfengissölu yrði afnumin og sala áfengis yrði leyfð i matvöruverslunum. Niðurstöðurnar voru vægast sagt sláandi. Áfengisneysla mundi aukast um 37,4% og leiða til hærri dánartíðni, aukins ofbeldis, fjölgunar þeirra sem aka undir áhrifum áfengis og gríðarlegrar fjölgunar veikindadaga.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin sendi landlæknisembættinu bréf í tilefni af framlagningu frumvarpsins og hvatti til þess að Íslendingar héldu fast við stefnu sína um einokun ríkisins enda dregur slíkt úr neyslu. Mig langar til að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hann taki undir það sjónarmið. Nú er lýðheilsuhópur starfandi á vegum hæstv. ráðherra sem á að skila í lok þessa árs og mig langar að spyrja hvort hann telji að framlagning frumvarpsins sé í andstöðu við markmið ríkisstjórnarinnar um lýðheilsu.