144. löggjafarþing — 83. fundur,  23. mars 2015.

frumvarp um sölu áfengis í matvöruverslunum.

[15:19]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Vissulega erum við að ræða hér um löglega söluvöru. En hæstv. ráðherra svaraði ekki spurningunni: Vill hann auka aðgengi að henni enn meira og enn frekar? Þrátt fyrir að ÁTVR hafi verið að auka þjónustu með takmörkuðum opnunartímum þá breytir það ekki því að frumvarpið gengur út á að auka aðgengið enn frekar. Ég spyr því ráðherrann hvort það samræmist stefnu ríkisstjórnarinnar.

Það kom fram hjá SÁÁ að fjórða hvert barn á foreldri eða annan náinn aðstandanda sem er alkóhólisti, við erum að tala um 22 þús. börn. Landlæknisembættið fullyrðir líka að andstætt því sem kemur fram í greinargerð með frumvarpinu bendi allar alþjóðlegar rannsóknir til þess að afnám einkasölu á áfengi muni leiða til aukinnar heildarneyslu. Enn fremur sýna rannsóknir að samhliða aukinni áfengisneyslu aukist samfélagslegur kostnaður vegna áfengistengdra vandamála, og það er það sem ég er að spyrja um og snýr að hæstv. ráðherra og hlýtur að marka afstöðu hans til frumvarpsins. Það liggur ekkert fyrir í frumvarpinu hvaða áhrif breyting á einum þætti hefur á árangur af öðrum. (Forseti hringir.) Því spyr ég: Styður hæstv. heilbrigðisráðherra þetta frumvarp sem flokksfélagar hans standa fyrir í þinginu?