144. löggjafarþing — 83. fundur,  23. mars 2015.

olíuleit á Drekasvæðinu.

[15:22]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það hefur víst ekki farið fram hjá neinum að landsfundur Samfylkingarinnar var um helgina, afar dramatískur. Þar var hv. þm. Árni Páll Árnason endurkjörinn formaður með einungis einu atkvæði. Fleira markvert gerðist á fundinum því að Samfylkingin skipti um skoðun í einu máli sem snýr að leit að olíu á Drekasvæðinu. Þykir mörgum það mjög skrýtið sérstaklega í ljósi þess að hv. þm. Össur Skarphéðinsson barðist mjög fyrir þeim málaflokki þegar hann var iðnaðarráðherra á sínum tíma og raunar héldu allir að þetta væri einhvers konar stefna Samfylkingarinnar. Stundum hefur Samfylkingin verið kallaður eins máls flokkur og nú er ESB-málið dautt er Samfylkingin að falla frá þessu líka.

Í samþykkt landsfundar Samfylkingarinnar stendur þessi ályktun, með leyfi forseta:

„Samfylkingin telur að mistök hafi verið gerð þegar leit var hleypt af stað á Drekasvæðinu. Nú þarf að vinda ofan af þeirri leit og vinnsluáformum og lýsa því yfir að Íslendingar hyggist ekki nýta hugsanlega jarðefnaorkukosti í lögsögu sinni.“

Í ljósi þessa langar mig að spyrja hv. viðskipta- og iðnaðarráðherra: Hefur nokkuð breyst í stefnu ríkisstjórnarinnar í þessum málum? Raunverulega má segja að núverandi ríkisstjórn hafi tekið við af fyrri ríkisstjórn og muni halda þessari leit þarna áfram. (Gripið fram í.) Að vísu vissum við náttúrlega (Gripið fram í.) að Vinstri grænir voru á móti (Gripið fram í.) olíuvinnslu, eins og heyra má hér í salnum. En ef einhvern tímann væri hugað að því að falla frá þessum áformum, telur ráðherrann þá ekki að íslenska ríkið sé nú þegar orðið skaðabótaskylt ef ný stefna Samfylkingarinnar nær fram að ganga í þessum málaflokki?