144. löggjafarþing — 83. fundur,  23. mars 2015.

olíuleit á Drekasvæðinu.

[15:24]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Varðandi spurningu hv. þingmanns sem beinist að stefnu ríkisstjórnarinnar: Nei, það hefur ekkert breyst í stefnu ríkisstjórnarinnar sem var kirfilega skjalfest í stjórnarsáttmála einhvern veginn á þann hátt að ríkisstjórnin mundi beita sér fyrir því að nýting hugsanlegra olíu- og gasauðlinda gæti hafist sem fyrst ef þær fyndust á annað borð. Einnig var í stjórnarsáttmálanum ákvæði um að við skyldum setja af stað undirbúning að regluverkinu, að við mundum gera þær innviðabreytingar og bætur sem til þyrfti þannig að við yrðum tilbúin ef þær rannsóknir sem settar voru af stað í tíð síðustu ríkisstjórnar skiluðu niðurstöðum. Þess vegna kemur stefnubreyting Samfylkingarinnar verulega á óvart. Hér situr í salnum fyrrverandi olíumálaráðherra, hæstv. Össur Skarphéðinsson, sem fór mikinn í því máli.

En ég verð að rifja það upp að þau leyfi sem gefin voru einmitt í tíð ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna voru ekki bara rannsóknarleyfi, það voru leyfi til rannsókna og vinnslu. Það er mjög mikilvægt að því sé haldið til haga.

Spurt er um skaðabótaskyldu. Ég get ekki svarað því að óathuguðu máli en ég mun kynna mér það vegna þess að auðvitað bregður manni við svona fréttir, ekki síst í ljósi þess að 28. janúar síðastliðinn voru samþykkt lög á Alþingi með atkvæðum allra þingmanna Samfylkingarinnar um stofnun ríkisolíufélags, sem er einmitt til þess einn liður í því er að gera okkur tilbúin (Forseti hringir.) til þess að vinna olíuna og taka þátt í starfi Norðmanna (Forseti hringir.) ef til þess kemur.