144. löggjafarþing — 83. fundur,  23. mars 2015.

ívilnunarsamningur við Matorku.

[16:01]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mér finnst það mikilvægast í þessari umræðu að við tölum um þessi mál þannig að við viljum að allur opinber stuðningur sé á jafnréttisgrundvelli og hann raski ekki samkeppnisstöðu þeirra sem fyrir eru. Það er auðvitað það sem við erum að tala um hérna vegna þess að fyrirtæki í bleikjueldi í landinu hafa skiljanlega miklar áhyggjur af markaðsmálum sínum í kjölfar þess að þetta fyrirtæki, Matorka, sé að koma inn á markaðinn og ætli sér að framleiða helming af því sem núverandi heimsmarkaður hefur tekið á móti undanfarið, þ.e. 6 þús. tonn.

Þá er eðlilegt að þau fyrirtæki spyrji: Hvað þýðir það fyrir afkomu okkar að fyrirtæki með þessum ríkisstuðningi komi svona inn, mun það koma niður á möguleikum okkar á að selja inn á þennan markað? Ekki viljum við að ívilnanir varðandi nýfjárfestingar stuðli að því að hrinda öðrum fyrirtækjum í sömu grein út af markaði? Varla getur það verið meiningin með svona stuðningi. Þess vegna hlýtur að þurfa að horfa á þetta allt í heildarsamhengi.

En ég undirstrika að mér finnst miklu heilbrigðara að það sé rammalöggjöf um slíkar ívilnanir frekar en að taka upp aftur þann sið að taka fyrir samninga við hvert og eitt fyrirtæki hér á Alþingi og fjalla um þá hér. Ég vil undirstrika það.

Ég tel að hér sé eitthvað sem þurfi að skoða betur og ráðherra þurfi að fara vel yfir og láta fara vel yfir hvort fyrirtækið uppfylli það sem það á að gera og það sé þá ekki tortryggni gagnvart því og enginn fiskur undir steini í þeim efnum. Við verðum bara að bíða og kannski taka þessu með stóískri ró og sjá hvað kemur út úr því. (Forseti hringir.) Ekki viljum við að misfarið sé með opinbert fé, (Forseti hringir.) þess vegna verða allir þessir hlutir að vera á hreinu.