144. löggjafarþing — 83. fundur,  23. mars 2015.

ívilnunarsamningur við Matorku.

[16:05]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á góðu fréttunum og fagna því að 12 fiskeldisfyrirtæki hyggist stefna að frekari fjárfestingu í fiskeldi á næstu árum. Verkefnin þurfa ávallt að uppfylla almenn skilyrði laganna og vera innan byggðakortsins til að hljóta ívilnanir, eins og fram hefur komið. Óháð nefnd á vegum stjórnvalda fer yfir það hvort umsækjandi um ívilnun uppfylli skilyrði laganna sem byggja sem áður segir á samkeppnisreglum ESB og gerir að lokinni yfirferð sinni tillögur til ráðherra. Að því leyti er því tryggt að bæði lögin og framkvæmd þeirra er að öllu leyti á jafnræðisgrundvelli og ekki er unnt að gera upp á milli fyrirtækja með handahófskenndum hætti.

Við þurfum að auka verðmætasköpun hér á landi. Nýfjárfestingar eru bráðnauðsynlegar ef við ætlum að ná settum markmiðum og Ísland er í harðri samkeppni við aðrar þjóðir sem margar hverjar veita ríkulegar ívilnanir. Svo virðist sem fjárfestingarsamningur stjórnvalda við fiskeldisfyrirtækið sé í samræmi við sambærilega samninga sem stjórnvöld hafa áður gert. Hér hafa verið nefndir samningarnir við Thorsil og Algalíf.

Að lokum langar mig að spyrja hv. þm. Helga Hjörvar hvernig hann fyrir sjái hjá 300 þús. manna þjóð að forsvarsmenn fyrirtækis megi ekki verið tengdir stjórnvöldum hverju sinni ef þeir hyggjast sækjast eftir að gera fjárfestingarsamninga við stjórnvöld. Hvernig á það að ganga upp? Gætum við jafnræðis ef sú leið er valin? Ég held ekki. Aðalatriðið í þessu máli sem og öðrum sambærilegum er að farið sé að lögum, jafnræðis gætt og að hvatar til nýfjárfestinga séu til staðar hér á landi svo við séum samkeppnishæf. Við þurfum að byggja hér upp öflugt atvinnulíf, skapa verðmæti og auka þar með velferð og hagvöxt, okkur öllum til heilla.