144. löggjafarþing — 83. fundur,  23. mars 2015.

fjárfestingarumhverfi lífeyrissjóðanna og fjárfestingar í íbúðarhúsnæði.

568. mál
[16:18]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Fjárfestingarumhverfið fyrir lífeyrissjóðina skiptir okkur öll miklu máli og það hvernig til tekst með að ávaxta þá sjóði sem þeim er treyst fyrir. Svo virðist sem árið 2014 hafi verið þó nokkuð gott og hagfellt lífeyrissjóðakerfinu og að ávöxtun hafi í mörgum tilvikum verið með ágætum sem skiptir okkur öll verulegu máli.

Varðandi það hvort ríkisstjórnin eða ráðherra hafi átt viðræður við lífeyrissjóðina um mögulega aðkomu þeirra að því að leysa úr skorti á íbúðarhúsnæði í landinu, sérstaklega kannski á höfuðborgarsvæðinu, hefur sá sem hér stendur ekki átt í slíkum viðræðum. Það er þó í sjálfu sér ekkert sem kemur í veg fyrir að lífeyrissjóðirnir séu áfram virkir í því til dæmis að veita lán til kaupa á húsnæði enda hafa þeir átt talsverðan skerf af lánveitingum til húsnæðiskaupa. Það færi hins vegar ekki mjög vel saman við þá umræðu sem er farin að verða meira áberandi, að það sé mikilvægt að að baki slíkum leigufélögum eða eigendum íbúðarhúsnæðis séu félög sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni vegna þess að lífeyrissjóðirnir hljóta að þurfa að fá sína ávöxtun.

Varðandi vinnu við endurskoðun fjárfestingarheimilda lífeyrissjóðanna hefur það verk reynst töluvert erfitt viðfangs og því hefur miðað fremur hægt en nefnd um endurskoðun fjárfestingarheimilda hefur verið að störfum um nokkurt skeið. Þó glittir í lok vinnunnar og ég vonast til þess að geta kynnt efnahags- og viðskiptanefnd stöðu málsins á þessu vorþingi og stefnt er að því að fyrir haustþingið komi frumvarp fram á Alþingi. Nú stendur yfir vinna við athugasemdir og samráðs verður leitað við hagsmunaaðila í vor og sumar.

Varðandi fjárfestingarumhverfi lífeyrissjóðanna er það að segja að takist að afnema gjaldeyrishöftin hafa í nefndri nefnd komið fram tillögur að nýjum ákvæðum þar sem aukin áhersla er lögð á ýmis sjónarmið um varfærni. Í tillögunum er gert ráð fyrir að lífeyrissjóðum sé veitt aukið svigrúm til fjárfestinga, þ.e. að magnbundin hámörk á tegundagrunni verði rýmkuð, svo sem í skuldabréfum, hlutabréfum, hlutdeildarskírteinum, að það sé sem sagt hægt að auka hlutdeildina þar af heildareignasafninu, enda sé farið að tilteknum reglum um varfærni.

Þá geri ég ráð fyrir að fjallað verði um afleiður með ítarlegri hætti í tillögunum sem nú eru í smíðum og að gert verði ráð fyrir að lífeyrissjóðirnir fái heimildir til að lána verðbréf. Samkvæmt nefndinni eru þessar hugmyndir allar í útfærslu en það liggur að sjálfsögðu fyrir að lífeyrissjóðirnir geta haft gríðarleg áhrif á þróun hagkerfisins, bæði í bráð og lengd, eftir að gjaldeyrishöft eru afnumin, þessi fjármagnshöft, og það liggur einnig fyrir að ekki er einfalt að komast hjá því að sjóðirnir séu mögulega stór áhrifavaldur á þróunina þegar höft eru afnumin.

Aðalatriðið er að hér í landinu séu til staðar góðir fjárfestingarkostir, það sé hagvöxtur í landinu, að við séum að styðja við atvinnulífið og uppbyggingu og að hér þróist markaðir sem lífeyrissjóðirnir geta tekið þátt í. Augljóst er að við þurfum smám saman að opna fyrir möguleika sjóðanna til að geta dreift eignasafni sínu betur en átt hefur við undanfarin ár. Mikilvægi þess kom ágætlega í ljós við fall fjármálakerfisins, þá jókst hlutfallslegt virði erlendra eigna, m.a. út af falli íslensku krónunnar. Þar kom mikilvægi áhættudreifingarinnar vel í ljós en jafnvel þótt við þurfum að setja það í forgang að losa um höftin með þeim hætti að lífeyrissjóðirnir fái tækifæri að nýju til að fjárfesta í útlöndum er langlíklegast að við þurfum að hafa einhverjar hraðahindranir í því eins og það er stundum nefnt. (Forseti hringir.) Það hlýtur að vera eitt af helstu forgangsmálum okkar að koma aftur á eðlilegu ástandi. Þetta snýst ekki bara um (Forseti hringir.) að leysa slitabúin og snjóhengjuna, heldur að gera það einmitt þannig að lífeyrissjóðirnir fái aukin tækifæri (Forseti hringir.) í þessu samhengi.