144. löggjafarþing — 83. fundur,  23. mars 2015.

fjárfestingarumhverfi lífeyrissjóðanna og fjárfestingar í íbúðarhúsnæði.

568. mál
[16:25]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Þetta eru athyglisverð skoðanaskipti. Ég tek undir það sem hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason sagði í sinni stuttu en ágætu ræðu. Það kallaðist á við blálok ræðu hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sem var það sem kveikti í mér til að koma hérna upp. Ég tók eftir því að hæstv. ráðherra orðaði það svo að það væri mikilvægt að opna lífeyrissjóðunum leið og jafnvel þyrfti að gera það þó að ekki væri búið að ljúka snjóhengjunni hinni fornu, mér skildist hæstv. ráðherra segja það, eða ganga frá slitabúum.

Mig langar þess vegna að spyrja hæstv. ráðherra hvort það komi til greina að lífeyrissjóðirnir fái einhvers konar forgang þegar kemur að afnámi gjaldeyrishafta.