144. löggjafarþing — 83. fundur,  23. mars 2015.

tryggingagjaldsgreiðslur vegna fólks sem er 60 ára og eldra.

599. mál
[16:34]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Hér er spurt hve stór hluti tryggingagjaldsgreiðslna, hlutfallslega og í krónum, sé greiddur vegna fólks sem er 60 ára og eldra, 65 ára og eldra, 67 ára og eldra og 70 ára og eldra. Ég þarf bara að lesa upp svarið. Eins og fyrirspurnin er lögð fram er best að fara yfir þetta í sömu röð.

Fyrir 60 ára og yfir er fjöldinn 26.053, þ.e. 13,01% fjöldans. Tryggingagjaldið er 8.548.138.356 kr. sem er 13,05% af hlutfalli gjaldsins.

Fyrir 65 ára og yfir er fjöldinn 12.130, þ.e. 6,06%. Tryggingagjald er 3.144.305.444 kr. sem er 4,8% tryggingagjaldsins.

Fyrir 67 og yfir er fjöldinn kominn niður í 7.763, þ.e. 3,88%. Tryggingagjaldið er 1.661.946.605 kr., þ.e. 2,54%.

Fyrir 70 og yfir er fjöldinn 3.606, þ.e. 1,8% fjöldans. Tryggingagjaldið er 516.456.797 kr., þ.e. 0,79% tryggingagjalds.

Þetta svar byggir á svari sem ríkisskattstjóri veitti fjármála- og efnahagsráðuneytinu vegna fyrirspurnarinnar. Þar hefur þetta verið sundurliðað með þessum hætti og upplýsingar dregnar svona saman.

Það kemur fram í svari ríkisskattstjóra að ekki er til sundurliðun á tryggingagjaldsgreiðslum niður á launþega. Af þeim ástæðum þurfti að skoða tryggingagjaldsskyldar tekjur á skattframtölum einstaklinga 2014. Það er þá vegna ársins 2013 og þá voru tilteknir tekjureitir á tekjuhlið framtals skoðaðir sem innihalda greiðslur sem greiða á tryggingagjald af, þ.e. launatekjur í reit 21, ökutækjastyrkur í reit 22, bifreiðahlunnindi í reit 134 og reiknað endurgjald í reit 24. Það er grunnur þessara upplýsinga.

Að öðru leyti vildi ég segja um þá hugmynd sem hv. þingmaður reifar hér að mér finnst vel virðingarvert sjónarmið að huga að því með hvaða hætti hægt er að koma helst til hjálpar þeim sem eiga erfiðast á vinnumarkaði og hvort tryggingagjaldið geti þar eitthvað spilað inn í. Í mínum huga er þó ekki síður mikilvægt að huga að því hvernig við getum dregið úr tekjutengingum bóta hjá þessum hópi fólks vegna þess að á þessu aldursbili, upp undir sjötugt og jafnvel yfir sjötugu, er margt fólk með býsna takmörkuð lífeyrisréttindi og þegar það fer út á vinnumarkaðinn verður það fyrir allharkalegum skerðingum.

Ef ætlunin er að bæta kjör þessa hóps sérstaklega mætti ekki síst skoða leiðir til að draga úr tekjuskerðingunum, sérstaklega fyrir þá sem hafa minnstu lífeyrisréttindin. Það má alveg velta fyrir sér hvort það eigi sérstaklega að lækka tryggingagjaldið vegna þessa aldurshóps en þó finnst mér helsti ókosturinn við þá hugmynd sá að það mundi flækja tryggingagjaldskerfið töluvert mikið.

Að öðru leyti er æskilegt að tryggingagjaldið lækki frekar en orðið er. Það hafa verið lögbundnar nokkrar lækkanir þess en það er spurning hvort ekki myndist frekara svigrúm á næstu árum til að halda áfram að lækka það. Hluti af þeirri umræðu verður þá að vera sá sem ekki bara tengist atvinnuleysistryggingagjaldinu eða því sem eyrnamerkt er Atvinnuleysistryggingasjóði eða Fæðingarorlofssjóði, heldur ekki síst almenna hluta tryggingagjaldsins. Getum við ekki verið sammála um að sá hluti tryggingagjaldsins þurfi að verulegu leyti, ef ekki öllu, að renna til fjármögnunar á almannatryggingakerfinu? (Forseti hringir.) Þetta skiptir miklu máli vegna þess að það hefur sveiflast mjög verulega í gegnum tíðina hve stór hluti tryggingagjaldsins stendur undir fjármögnun þess kerfis (Forseti hringir.) og hefur tíðum valdið spennu í samskiptum við aðila vinnumarkaðarins.