144. löggjafarþing — 83. fundur,  23. mars 2015.

tryggingagjaldsgreiðslur vegna fólks sem er 60 ára og eldra.

599. mál
[16:40]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ákaflega skýr svör og sömuleiðis fyrir nokkuð glæsileg tilþrif við að koma þessu torfi á framfæri. Það gerði hann mjög vel og með þeim hætti að ég skildi það vel. Þær upplýsingar sem hann gefur hér komu mér svolítið á óvart. Ég gerði mér ekki alveg grein fyrir því að þetta færi svona hratt stigminnkandi, en það leiðir mig í öllu falli til þeirrar niðurstöðu að sú hugmynd sem hæstv. ráðherra tók ekki illa í sé að minnsta kosti þess virði að skoða hana mjög rækilega.

Ég er líka þakklátur hæstv. ráðherra fyrir að hafa, án þess að ég bæði hann sérstaklega um það, veitt okkur þau forréttindi að leyfa þinginu að skyggnast inn í huga hans varðandi þetta. Eins og ég sagði fannst mér hann jákvæður. Hann ber eðlilega inn í umræðuna að hugsanlega ætti að nota þetta fjármagn frekar til að minnka skerðingar. Það er fín hugmynd, en það sem fyrir mér vakir er ekki bara að bæta kjörin hjá þessum hópum. Auðvitað vakir í huga mér að skapa stöðu þannig að það fólk geti aflað sér tekna á vinnumarkaði, en ég held líka að við og vinnumarkaðurinn munum í vaxandi mæli þurfa á því að halda. Eins og hæstv. ráðherra veit færir aldurinn með sér reynslu, rólyndi og íhugun og það er alltaf þörf á slíku fólki. Reynslan á vinnumarkaði er einmitt sú að fólk á þessum aldri getur jafnvel betur unnið ýmis störf. Sagði ekki umboðsmaður Alþingis hér um daginn að eitt af því sem væri aðfinnsluvert við ríkisstjórnir síðustu ára væri hvað þær tækju sér unga aðstoðarmenn? Ég rifja þá upp fordæmi ýmissa í þeim efnum.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta svar og hef í höndum tölur til að geta síðar átt við hann orðaskipti, hugsanlega þegar búið er að þróa þetta frekar.