144. löggjafarþing — 83. fundur,  23. mars 2015.

tollar á franskar kartöflur.

606. mál
[16:54]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég verð að taka undir með síðustu orðum hæstv. ráðherra. Það kemur mér á óvart ef heildarupphæðin af tollum og innflutningsgjöldum er svona lág. Þá má náttúrlega ekki gleyma því að það er nýbúið að taka stóra sneið af þeim með nýlegum fríverslunarsamningi okkar við Kína. Ég mundi hins vegar segja við hæstv. ráðherra að fyrst staðan er þessi, og hann er eins og við vitum óðfús að einfalda öll kerfi sem hann kemur nálægt og finnst sumum fullmikið til um það, þar á meðal mér í einstökum greinum án þess að ég ætli að fara út í það, hefur hann kjörið tækifæri til þess þarna. Ég hvet hæstv. ráðherra til að láta hendur standa fram úr ermum og hreinsa til í þessu, fella mest af því niður.