144. löggjafarþing — 83. fundur,  23. mars 2015.

tollar á franskar kartöflur.

606. mál
[16:55]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi. Ég heyri ekki betur en að þessi litla fyrirspurn um franskar kartöflur hafi kallað á yfirlýsingu fjármálaráðherra um stórtæka endurskoðun á tollakerfinu. Ég fagna því. Ég held að það sé verkefni sem við eigum að sameinast um, að fella niður mikið af óþarfatollum sem skila tiltölulega litlum tekjum og miða að óljósum markmiðum.

Ráðherra bendir réttilega á að þetta eru einkum tvenns konar vörur, iðnaðarvörur og landbúnaðarvörur. Ég held að allt of margar vörur sem við erum að tolla sem landbúnaðarvörur séu í raun bara iðnaðarvörur. Vegna þess að menn vilja sýna ákveðna samstöðu með íslenskum landbúnaði er verið að tolla alls kyns óskyldar vörur. Ég bið ráðherrann að skerpa á því. Er tollurinn á þessar vörur verndartollur? Er þetta til að vernda íslensku framleiðsluna? Finnst honum það skynsamlegt þegar hún er bara með 5% af markaðnum? Eru þessar blessuðu kartöflur iðnaðarvara eða landbúnaðarvara?

Ég held að við leggjum allt of oft himinháa landbúnaðartolla á það sem er bara iðnaðarframleiðsla og á ekkert skylt við landbúnað. Við ættum kannski fyrst að einbeita okkur að því að ná þeim tollum niður því að öll viljum við auðvitað hafa ákveðna varnarmúra um íslenskan landbúnað þó að það sé sannfæring mín að við eigum í langtímasamningum sannarlega að tryggja afkomu bænda en ekki tryggja í þeim viðvarandi himinháa tolla heldur reyna að miða að því í slíkum langtímasamningum að ná þeim tollum niður, neytendum til hagsbóta.