144. löggjafarþing — 83. fundur,  23. mars 2015.

raforkumál á Norðausturlandi.

569. mál
[17:00]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég hef leyft mér að leggja spurningar fyrir hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra um stöðu raforkumála á norðaustanverðu landinu. Fyrri tvær spurningarnar eru svohljóðandi:

1. Hvert er mat ráðherra á stöðu raforkumála á Norðausturlandi, þ.e. svæðinu sem háð er raforkuflutningi frá Laxárvirkjun um Kelduhverfi, Öxarfjörð til Kópaskers og Raufarhafnar, um Þistilfjörð og Langanes til Þórshafnar og Langanesströnd allt til Bakkafjarðar?

2. Eru uppi áform um að bæta úr ónógri flutningsgetu og takmörkuðu afhendingaröryggi kerfisins á fyrrgreindu svæði sem stendur atvinnuuppbyggingu og framþróun fyrir þrifum?

Eins og ráða má af spurningunum er þarna verið að spyrja út í ástand sem er langt í frá boðlegt. Það kemur að öllum þáttum málsins en sérstaklega er það tvennt, að flutningsgeta er ónóg og afhendingaröryggi verulega ábótavant. Staða þessa svæðis er um margt hliðstæð Vestfjörðum. Hér er ekki um hringtengd svæði að ræða heldur er um að ræða langa línu frá einum upphafspunkti og með endastöð sem veldur því að ef bilun verður á leiðinni er ekki hægt að senda rafmagn úr annarri átt. Þetta stendur sannarlega uppbyggingu fyrir þrifum. Þannig má nefna að í iðnaði á Þórshöfn þar sem er langorkufrekasta starfsemin á svæðinu, fiskimjölsverksmiðja og mikil frysting, er ekki hægt að rafvæða bræðsluna og allt á tampi þegar mest eru umsvifin. Þetta leiðir til þess óhagræðis að til að reyna að tryggja eitthvert lágmarksöryggi þar er dýru og miklu varaafli haldið úti á stöðunum. Þetta ástand minnti á sig þegar áhyggjur voru af hlaupum eða flóðum í Jökulsá á Fjöllum í sumar og menn sáu fram á að færi línan í sundur í Öxarfirði yrði ófremdarástand á svæðinu þar fyrir austan.

Það er rétt að taka sérstaklega fram að hér snýst vandinn ekki um að ekki sé til nægjanleg orka í sjálfu sér inni á aðalflutningskerfinu frá Kröflu eða Laxárvirkjun þess vegna og austur á þetta horn. Við erum ekki að tala um mjög stórar tölur í megavöttum í afli talið. Þetta snýst heldur ekki um að neinn ágreiningur eða vandamál séu samfara því hvernig eigi að leiða rafmagnið um svæðið. Það er ekki ágreiningur um þau línustæði sem þarna eru eða jarðstrengjasvæði sem eru til dæmis yfir Öxarfjarðarheiði. Vandinn snýst um það að hér hefur ekki verið fjárfest nægjanlega í kerfinu á undanförnum árum.

Það sem kemur til greina til úrbóta er að sjálfsögðu að styrkja og auka flutningsgetuna í fyrsta lagi eftir núverandi leið, í öðru lagi að ljúka hringtengingu svæðisins með því að tengja Vopnafjörð við Bakkafjörð og í þriðja lagi gæti framleiðsla á svæðinu í einhverjum megavöttum talið sem möguleikar eru á verulega bætt úr ástandinu.

Að síðustu hef ég þar af leiðandi spurt hæstv. ráðherra:

3. Er ráðherra tilbúinn til að skipa starfshóp eða ráðgjafarhóp um raforkumál á þessu svæði, sambærilegan þeim sem sinnt hefur raforkumálefnum á Vestfjörðum (Forseti hringir.) síðan 2009?

Það hefur verið ágætisárangur eða að minnsta kosti talsverður.