144. löggjafarþing — 83. fundur,  23. mars 2015.

raforkumál á Norðausturlandi.

569. mál
[17:13]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég bind miklar vonir við vinnu starfshópsins. Fyrirmyndin frá Vestfjörðum sýnir að þegar menn leggjast yfir þetta, heimamenn, flutningsfyrirtækin, fyrirtæki á svæðinu — í Norðausturnefndinni eru fulltrúar frá til að mynda Ísfélagi Vestmannaeyja sem starfrækir fiskimjölsverksmiðjuna á Þórshöfn. Við höfum verið í samtali við þá um hvernig við getum bætt úr þessu. Samkvæmt lögum er kerfisframlag nauðsynlegt til að koma stærri framkvæmdum af stað af hálfu fyrirtækjanna. Það er mikill kostnaður sem menn geta haft skoðanir á hvort eigi einungis að lenda á fyrsta fyrirtækinu sem verið er að anna raforkuþörfinni fyrir eða hvort við þurfum jafnvel í framhaldinu að huga að breytingum á raforkulögunum með það að markmiði að gera þetta þannig úr garði að það sé ekki sá sem ryður brautina sem þarf að taka á sig allan kostnaðinn.

Þetta tel ég að hljóti að vera eitt þeirra atriða sem verði til skoðunar. Ég er algjörlega þeirrar skoðunar að með fordæminu sem nefndin á Vestfjörðum setur í sinni góðu vinnu hafi orðið úrbætur. Þær hafa orðið með þeim hætti að það er samstaða um hvaða leiðir á að fara. Það er ráðist í verkefnin eftir þeirri röð hvað er brýnast og úr hverju er brýnast að bæta. Þetta er endalaust viðfangsefni.

Ég ítreka að ég bind vonir við starf hópsins og mun halda þinginu upplýstu eins og hefur verið gert (Forseti hringir.) með árlegri skýrslu frá Vestfjarðanefndinni.