144. löggjafarþing — 83. fundur,  23. mars 2015.

norrænt merki fyrir sjálfbæra ferðamannastaði.

567. mál
[17:30]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Róbert Marshall) (Bf):

Virðulegur forseti. Sú spurning sem ég beini hér til hæstv. umhverfisráðherra á vel við því að í dag er það meðal tíðinda að ferðamönnum á Íslandi þykir of mikið af ferðamönnum á Íslandi. Norðurlandaráð ákvað á þingi sínu í Stokkhólmi í október 2014 að beina þeim tilmælum til norrænu ráðherranefndarinnar að kanna sóknarfæri, gera grein fyrir skipulagi og markmiðum og varpa ljósi á leiðir til að setja á laggirnar samnorrænt kerfi til eflingar sjálfbærum ferðamannastöðum og eiga um það samstarf við aðila á Norðurlöndum sem þegar eru að þróa sambærileg kerfi í löndunum og einnig við Svaninn, norræna umhverfismerkið, og einnig að koma upp vettvangi fyrir fulltrúa norrænna yfirvalda á sviðum ferðaþjónustu, menningarmála og umhverfis- og náttúruverndarmála auk umhverfis- og ferðamálastofnana með það að markmiði að þróa tillögur að samnorrænum heitum yfir hugtök á borð við sjálfbæra ferðamennsku og sjálfbæran ferðamannastað og veita ráðgjöf við gerð tillögu um samnorrænt kerfi til eflingar sjálfbærum ferðamannastöðum.

Í rökstuðningi fyrir tillögunni segir að vöxtur í ferðaþjónustu á Norðurlöndum hafi verið meiri en í öðrum atvinnugreinum, u.þ.b. 4% á ári, og er þess vænst að svo verði áfram. Hann er reyndar töluvert meiri hérlendis. Ferðaþjónustan er meðal þeirra atvinnugreina sem búist er við að skapi flest störf í framtíðinni. Rannsóknir á þessu sviði benda til að ferðamenn sækist í auknum mæli eftir því að upplifa einstaka áfangastaði þar sem virk þátttaka þeirra og þekkingaröflun sé höfð í fyrirrúmi. Svæðisbundin framleiðsla og menning mun öðlast aukið vægi og sömuleiðis kröfur um að ferðamennskan setji ekki mark sitt á umhverfi og samfélag. Spurningin er hvort og hvernig megi þróa ört vaxandi ferðaþjónustu án þess að undirstöðurnar bíði skaða af. Reynslan af notkun umhverfismerkja á hótelum er jákvæð og gefur von um að slíkar merkingar megi einnig nota til að votta gæði ferðamannastaða. Síðustu 20 árin hefur oftsinnis verið reynt að festa merkingar eða vottanir fyrir ferðamannastaði í sessi en með takmörkuðum árangri.

Það er af þessu tilefni sem ég beini eftirfarandi spurningum til umhverfis- og auðlindaráðherra:

1. Hafa íslensk stjórnvöld tekið afstöðu til framangreindra tilmæla Norðurlandaráðs um þróun norræns merkis fyrir sjálfbæra ferðamannastaði?

2. Hafa íslensk stjórnvöld beitt sér fyrir því að norræna ráðherranefndin fari að tilmælum Norðurlandaráðs?