144. löggjafarþing — 83. fundur,  23. mars 2015.

augnlæknaþjónusta.

595. mál
[17:51]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka ráðherra fyrir svarið svo langt sem það nær og hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir að leggja orð í belg. Ég held að ég verði samt sem áður að komast að þeirri niðurstöðu að hvað varðar augnlæknaþjónustu á Austurlandi núna, eftir þessa breytingu sem ég gat um áðan, sé ófremdarástand í augnlæknamálum á Austurlandi. Því ber að breyta. Þetta gengur ekki, það dugar ekki fyrir svona stóran landsfjórðung að augnlæknir komi tvisvar á ári. Það býður heim svona dæmum sem ég tók um þennan ellilífeyrisþega austur á landi sem þurfti að keyra með til Akureyrar. Þetta gengur ekki.

Hæstv. ráðherra ræddi áðan afsláttinn sem Sjúkratryggingar krefjast af kvóta sem er umfram. Þess vegna má ég kannski bæta við spurningu, virðulegi forseti, til hæstv. ráðherra og hún er sú hvort ekki væri ástæða fyrir heilbrigðisráðherra til að beita sér gagnvart Sjúkratryggingum Íslands þannig að við það að úthluta þessum kvótum án afsláttar verði kvótar settir niður til þeirra augnlækna sem sinna landsbyggðinni og eru tilbúnir að fara út á land, að þeir fái aukinn kvóta til þess eða að viðkomandi heilbrigðisstofnun fái kvóta til að nota þannig að ekki sé verið að krefjast þess af augnlæknum að þeir gefi endilega 10% afslátt af þessu.

Hitt atriðið sem ég vil líka nefna blandast að einhverjum hluta inn í þetta þó að ég taki skýrt fram að ég held að Heilbrigðisstofnun Austurlands láti það ekki hafa áhrif, þ.e. að heilbrigðisstofnanir úti á landi taka þátt í kostnaði eins og við ferðirnar, gistingu, uppihald, ritaraþjónustu og fleira sem heilbrigðisstofnanirnar fá ekki pening fyrir. Þær taka það úr sínum rekstri til að færa þjónustuna nær íbúunum sem ég, hæstv. ráðherra og hv. þm. Össur Skarphéðinsson erum hrifnir af að hafa. Það á að vera sami kostnaður fyrir fólk að fara til augnlæknis, hvort sem það gengur yfir Miklubrautina eða einhverjar götur á höfuðborgarsvæðinu eða býr úti á landi. (Forseti hringir.) Ég hvet hæstv. ráðherra til að beita sér fyrir breytingum þannig að þessi sérfræðiþjónusta geti verið meiri og eflst úti á landi.