144. löggjafarþing — 83. fundur,  23. mars 2015.

augnlæknaþjónusta.

595. mál
[17:54]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér hefur átt sér stað, liprir menn í tungu (Gripið fram í.) eftir góða helgi og halda góðar ræður. Þegar hér er sagt að sá sem hér stendur sé háll sem áll hefði ég frekar átt von á líkingu við urriða en álinn, ekki síst í ljósi þeirrar umræðu sem á eftir að verða hér á eftir.

Það er alveg rétt að margt má bæta í þessu kerfi og við erum að vinna að því. Fyrsta verkefnið var til dæmis að gera samninga við sérgreinalækna sem voru samningslausir 2010–2013. Það er forsendan fyrir því að geta gert kröfu til þess hvernig þeir haga störfum sínum. Við gerðum samninga undir lok árs 2013 en svo er aftur annað mál hvernig gengur að gera breytingar í þá veru sem við erum öll sammála um að þurfi að gerast, þ.e. að sérgreina- og sérfræðilæknisþjónustan verði sem næst fólkinu sjálfu. Það á heldur ekki að gera með þeim hætti að það leggist einhver sérstakur kostnaður á viðkomandi heilbrigðisstofnanir ef þær sinna þessu.

Ég nefndi áðan að samningur hefði verið gerður á milli Sjúkratrygginga Íslands og Heilbrigðisstofnunar Austurlands, sem er vel, en síðan á eftir að fullnusta með hvaða hætti unnt er að nýta fjárveitinguna. Það kann vel að vera — (KLM: Tvö skipti eru ekki nóg.) Nei, það kann vel að vera að við þurfum að gera breytingar á innihaldi sérgreinalæknasamningsins til að tryggja að við eigum kröfuna á að honum sé skilað út á vettvang. Ég fagna því að hér er samstaða um að bæta úr þeim brestum sem við erum klárlega með í þessari þjónustu en ég læt liggja á milli hluta að dæma um hvort þetta er ófremdarástand, (Forseti hringir.) sérstaklega þegar haft er í huga að magnið í þjónustunni sem verið er að veita (Forseti hringir.) … og að því eigum við að stefna.