144. löggjafarþing — 83. fundur,  23. mars 2015.

veiðireglur til verndar ísaldarurriða.

600. mál
[17:56]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég hef leyft mér að leggja hér tvær litlar spurningar fyrir hæstv. ráðherra sem varða verndun ísaldarurriðans í Þingvallavatni. Ég hef áður átt orðastað við ráðherrann um málefni þessu tengdu og vil þakka honum fyrir jákvætt viðmót, bæði í minn garð og urriðans þegar svo hefur borið undir, og get fullvissað hann um að báðir erum við honum þakklátir fyrir þann skilning sem hann hefur sýnt málinu.

Alþingi hefur sérstakar skyldur að lögum gagnvart Þingvöllum, gagnvart Þingvallavatni og líka lífríki þess, þar á meðal þeim fiskum sem þar lifa. Í áranna rás hefur Alþingi sett margvísleg lög sem hafa átt að skjóta styrkari stoðum undir lífríkið og m.a. sérstök lagaákvæði bæði til verndar kuðungableikju sem á sínum tíma var í nokkrum háska stödd og sömuleiðis ísaldarurriðanum. Sem betur fer hefur áhugi Alþingis á þessu máli og sérstaklega vernd ísaldarurriðans, viðleitni sem margir þingmenn hafa sýnt með því að reyna að forða honum úr tortímingarháska leitt til þess að á síðustu árum er aftur komin svolítið urriðaglóð í Þingvallavatn. Má segja að síðustu tvö ár hafi orðið þar veruleg breyting frá því sem við höfum nokkru sinni séð allar götur frá því vel fyrir virkjun.

Fiskisagan flýgur. Þetta hefur að sjálfsögðu vakið aukinn áhuga á urriðanum og menn hafa veitt hann þar á stöng á síðustu árum. Á sínum tíma greip Þingvallanefnd til þess ráðs að takmarka veiðar með því að setja stífari reglur. Þá bar svo við að menn sem bjuggu oft við ördeyðu í veiðiskap þegar þeir lögðu leið sína að vatninu fóru að nota alls konar margkrækjur og beitur sem urriðinn, sérstaklega á vorin þegar hann er ákaflega hungraður og bleikjan er ekki farin af stað og hann hefur ekkert annað æti, stökk á. Við sáum á þeim tíma að það gæti leitt til þess að skorið væri hressilega undan honum og ég vil segja það sérstaklega umhverfis- og auðlindaráðherra til hróss sem er líka formaður Þingvallanefndar að hún og Þingvallanefnd á síðasta ári beittu sér fyrir enn sterkari og stífari reglum, þ.e. settu reglur um að ekki mætti veiða urriða meðan á veiðitímabilinu stæði frá 20. apríl til 1. júní nema á flugu og einnig yrði þá að iðka það að veiða og sleppa, þ.e. öllum urriða sem veiddur væri á stöng yrði sleppt. Orkuveita Reykjavíkur hefur góðu heilli líka tekið þetta upp fyrir sínum löndum og frá því að ég lagði fram þessa fyrirspurn hef ég heyrt á skotspónum að veiðifélög eru búin að leigja frekari lönd þarna og ætla sér að iðka hið sama. Þetta er mjög jákvætt en ég tel að það sé mikilvægt að þetta sé sett sem almenn regla um allt vatnið og spyr hæstv. ráðherra hvort hann sé mér sammála og hvort hann í krafti sinnar mektar sjái einhverjar leiðir til að beita sér fyrir því.