144. löggjafarþing — 83. fundur,  23. mars 2015.

veiðireglur til verndar ísaldarurriða.

600. mál
[18:09]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvað urriðinn mundi gera hefði hann kosningarrétt. En það er rétt sem hér hefur komið fram að mjög mikilvægt er að við förum varlega við nýtingu á þeim stofni og gerum allt það sem gera þarf. Það er líka mikilvægt eins og kom fram í máli mínu og ég held að hv. fyrirspyrjandi hafi staðfest það með seinni ræðu sinni að mikilvægt er að þeir sem sinna þessum veiðum séu aðilar að því hvernig menn haga sér. Það er miklu auðveldara að setja reglur þegar þeir taka þátt í því að móta þær sjálfir heldur en að við setjum einhverjar reglur sem erfitt er síðan að framfylgja. Við þekkjum það, meðal annars frá reglugerð um vatnsvernd í Þingvallavatni sem setur alls konar kvaðir á til dæmis eftirlit með því hvað er notað til veiða og það er býsna flókið að fylgja því eftir í eftirliti.

Þess vegna skiptir kannski mestu máli að þeir sem þarna komi að taki þátt í því að móta slíkar reglur innan Veiðifélags Þingvallavatns. Það er rétt sem kom hér fram að þar eru margir opinberir aðilar, og það er kannski dæmigert að þeir eru ekki alltaf barnanna bestir í að koma hlutunum hratt og vel af stað, opinberir aðilar. Það eru oft frekar einstaklingarnir sem eru líklegir til þess, en eins og staðan er er alveg rétt að nýtingaráætlun fyrir vatnið liggur ekki fyrir, sem er skylda Veiðifélagsins að gera og Fiskistofa og Veiðimálastofnun eiga að fylgja því eftir og þar eru uppi hugmyndir um að gangast í það. Þær hugmyndir sem hafa komið fram, bæði hjá Þingvallanefnd og Orkuveitunni, eru í átt við það að fara skynsamlega og varlega að þessum veiðum og horfa til þess að gera þetta með sjálfbærum hætti og stofninn geti vaxið. En við þurfum líka frekari rannsóknir til að geta vitað nákvæmlega hvað við erum að gera en kannski fyrst og fremst þurfum við að fá betri skráningar.